327 brautskráðust frá HA

Útskriftarnemar á hug-og félagsvísindasviði.
Útskriftarnemar á hug-og félagsvísindasviði.

Í dag voru 327 kandídatar brautskráðir á Háskólahátíð Háskólans á Akureyri en athöfnin fór fram í fyrsta sinn í húsakynnum skólans. Háskólaárið 2013-2014 stunduðu um 1700 nemendur nám á þremur fræðasviðum. Staðarnemar voru 162, fjarnemar 85 og lotunemar 80. Flestir útskrifuðust af hug-og félagsvísindasviði eða 167, 85 af heilbrigðisvísindasviði og 75 af viðskipta-og raunvísindasviði. Konur eru í miklum meiri hluta þeirra sem brautskráðust eða 254 á móti 73 körlum.

Í brautskráningarræðu sinni fjallaði Stefán B. Sigurðsson rektor meðal annars um hvernig Háskólanum á Akureyri hefur tekist að standa af sér kröftugan niðurskurð síðustu fimm ára og getað samtímis greitt upp þær skuldir sem á honum hvíldu. Einnig kom hann inn á öll þau tækifæri sem  framundan eru fyrir háskólann varðandi aukningu á menntunarstigi á landsbyggðinni og þá einkum gegnum nútímalegt fjarnám og eflingu tæknimenntunar, viðbrögð við aukningu í ferðamennsku,  menntun og rannsóknir á sviði norðurslóðamála og þá einkum viðbrögð við afleiðingum hnattrænnar hlýnunar. Þá fjallaði Stefán um góða útkomu Háskólans á Akureyri í úttekt Gæðaráðs íslenskra háskóla þar sem skólinn fékk bestu einkunn sem háskóli getur fengið við fyrstu úttekt samkvæmt núverandi kerfi.

Viðurkenningu fyrir  góðan námsárangur (grunnám) hlutu eftirtaldir:

Auðlindafræði – Sindri Már Atlason

Félagsvísindi – Ingibjörg Elín Halldórsdóttir

Kennarafræði – Heiðar Ríkharðsson

Hjúkrunarfræði – Guðlaug Ásta Gunnarsdóttir

Iðjuþjálfunarfræði – Nína Jensen

Lögfræði – Magnús Valur Axelsson

Viðskiptafræði – Baldur Ingi Karlsson

 

Góðvinir Háskólans á Akureyri, félag brautskráðra nemenda við HA og annarra velunnara háskólans veittu viðurkenningar til þeirra nemenda sem hafa verið ötulir í því að starfa í þágu háskólans svo sem með nefndarsetum og við kynningarstarf. Þrír hlutu heiðursverðlaun Góðvina að þessu sinni, þau Hafdís Erna Ásbjarnardóttir (hug- og félagsvísindasviði), Jóhanna Ósk Snædal (heilbrigðisvísindasviði) og Leifur Guðni Grétarsson (viðskipta- og raunvísindasviði). Stefán B. Sigurðsson fráfarandi rektor HA fékk einnig sérstök verðlaun fyrir störf sín við háskólann.

Að lokinni brautskráningu veittu Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA og Stefán B. Sigurðsson rektor Háskólans á Akureyri rannsóknastyrki úr Háskólasjóði KEA. Hæsta styrkinn, að upphæð 1.000.000 kr., hlaut Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir verkefnið Vaðlaheiðargögn – samfélagsáhrif.

Nýjast