260 þúsund gestir heimsóttu Hof

Mynd/Hörður Geirsson
Mynd/Hörður Geirsson

Menningarfélag Akureyrar (Mak) hélt sinn fyrsta aðalfund nýverið en MAk tók yfir rekstur Leikfélags Akureyrar, Menningarfélagsins Hofs og Sinfoníuhljómsveitar Norðurlands 1. janúar 2015. Í tilkynningu segir að Gunnar I. Gunnsteinsson framkvæmdastjóri MAk hafi farið yfir það helsta sem gert hefur verið á þessu fyrsta ári. Þar kom fram að fyrst og fremst hafi farið töluverður tími í að ráða inn fólk, hefja stefnumótunarvinnu, marka listræna stefnu með starfsólki og koma rekstri hins nýja félags í ásættanlegt form. 

Eitt af aðal markmiðum sameiningarinnar var að auka framleiðslu og minnka yfirbyggingu þessara þriggja félaga og hefur verið unnið samkvæmt því. „Jafnframt var í fyrsta skipi boðið upp á sumardagskrá síðasta sumar og mæltist hún vel fyrir.  Slíkt mun halda áfram í nánu samstarfi við aðila í ferðaþjónustunni á norðurlandi.  Einnig var komið á fót nýtt verkefni að spila inn tónlist fyrir erlendar kvikmyndir og hefur það verkefni farið vel af stað undir nafninu ACO. Alls er MAk að framleiða um 20 listviðburði á yfirstandandi starfsári og eru það um 12 tónleikar og 8 verkefni tengd leiklist.  Stærsta verkefni MAk á næsta ári verður Píla Pína sem er fjölskyldusöngleikur sem sýndur verður í Hofi en öll svið MAk koma að framleiðslunni. Það er því ljóst að mikill metnaður og fjölbreytileiki stýra för hjá MAk fysta heila starfsárið sitt,“ segir í tilkynningu.

Gunnar fór einnig yfir helsu aðsóknartölur þetta fyrsta starfsár; 260 þúsund gestir heimsóttu Hof á árinu og þar af 160 þúsund frá áramótum. Aðeins komu færri en 1000 manns í fjóra daga í það heila en í júlí komu um 40 þúsund gestir í Hof.  17.000 áhorfendur sáu listviðburði í húsnæði MAk frá áramótum og þar af komu um 3000 á Lísu í Undralandi í Samkomuhúsinu. 3200 manns komu á 36 fundi eða ráðstefnur í Hofi frá áramótum en starfsfólk bindur miklar vonir við að hægt sé að auka nýtingu á húsnæðinu undir þá starfsemi.  Alls voru seldir miðar og gjafakort fyrir 63 milljónir frá 1. janúar en miðasala á fyrstu tveimur og hálfum mánuðum nýs starfsárs er komin í 56,2 milljónir.  Það er því ljóst að aukning verður í miðasölu á yfirstandandi starfsári. Kortasala fór vel af stað, mikil aðsókn var að tónlistarviðburðum þetta árið en áhorfendur gátu valið um fjölda viðburða, bæði eigin framleiðslu og gestaviðburði.  

Ágúst Torfi Hauksson, sem situr í  stjórn MAk, kynnti ársreikninga félagsins.  Þar kom fram að veltan var um 180 milljónir. Helsti útgjaldaliður er launakostnaður upp á 80 milljónir. MAk er að mestu fjármagnað af Akureyrarbæ í gegnum menningarsamning sveitafélagsins við Ríkið.  Segir í tilkynningu að sá samningur renni út um næstu mánaðarmót og  því er mikið í húfi að góðir samningar náist fljótt og örugglega milli þessara aðila. Rekstrarafgangur var um 500 þúsund. 

Nýjast