Alls 2.400 félagsmenn innan Einingar-Iðju, fjölmennasta stéttarfélags í Eyjafirði, lögðu niður vinnu í hádeginu þegar sextán aðildarfélög innan Starfsgreinarsambandsins (SGS) hófu verkfallsaðgerðir. Ekkert hefur þokast í kjaraviðræðum SGS og Samtaka atvinnulífsins og enn ber mikið á milli. Félagssvæði Einingar-Iðju nær frá Siglufirði til Grenivíkur, auk Hríseyjar og Grímseyjar.
Félagsmenn Einingar-Iðju munu einnig leggja niður störf 6. og 7. maí og 19. og 20. maí. Allar verkfallsaðgerðirnar standa yfir í tólf tíma. Takist ekki samningar mun ótímabundið verkfall skella á þann 27. maí.
-þev