23 flóttamenn koma til Akureyrar

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar,…
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrarkaupstaðar og Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar undirrita samninginn.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og bæjarstjórar Hafnarfjarðar, Kópavogs og Akureyrar undirrituðu samning í dag um móttöku 55 sýrlenskra flóttamanna sem væntanlegir eru til landsins í næsta mánuði. Undirbúningur að móttöku flóttafólksins hefur staðið yfir um nokkurt skeið í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR). Hópurinn samanstendur af tíu fjölskyldum; 20 fullorðnum einstaklingum og 35 börnum og dvelur fólkið allt í flóttamannabúðum í Líbanon. Af hópnum munu 23 setjast að á Akureyri, 17 í Hafnarfirði og 15 í Kópavogi. Á vef velferðarráðuneytisins segir Eygló Harðardóttir að það sé gleðilegt að nú sé komið að því að bjóða flóttafólkið velkomið til landsins: „Ég er þess fullviss að sveitarfélögin og aðrir sem hlutverki hafa að gegna muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að taka sem allra best á móti fólkinu þannig að því geti liðið hér vel og aðlagast íslensku samfélagi. Við landsmenn eigum að sameinast um þetta verkefni og leggja metnað okkar í að gera það sem best.“

Samið um stuðning til tveggja ára

Það nýmæli er í samningunum sem undirritaðir voru í dag að móttökuverkefnið tekur til tveggja ára í stað eins áður. Þetta er gert í samræmi við ábendingar sveitarfélaga sem telja í ljósi reynslu að flóttafólk hafi þörf fyrir stuðning í kjölfar komu hingað til lands um lengri tíma en áður hefur verið miðað við. Gert er ráð fyrir að greiðslur ríkisins til sveitarfélaganna á samningstímanum nemi samtals 173,4 milljónum króna.

Rauði krossinn á Íslandi kemur að móttöku flóttafólksins í hverju sveitarfélagi þar sem hann útvegar fólkinu nauðsynlegt innbú á heimili þeirra og hefur jafnframt umsjón með stuðningsfjölskyldum sem ætlað er að liðsinna flóttafólkinu við aðlögun. Velferðarráðuneytið og Rauði krossinn gera með sér samning um framkvæmd þessara verkefna.

Nýjast