Samtíningur
Nýr þulur á Rás1 í Ríkisútvarpinu hefur tamið sér framburð í lestri - í þessu musteri íslenskrar tungu - sem að vísu er algengur í máli fólks en getur ekki talist til fyrirmyndar. Framburðurinn felst í því að fella saman hljóð og er þetta fyrirbæri einfaldlega kallað samlögun í málfræði. Þulurinn segir t.a.m. /mass/ þegar hann talar um mánuðinn mars, /dassgrá/ þegar hann kynnir dagskrá útvarpsins, og talar um /kuffélag/ þegar gamlir kaupfélagsmenn segja kaupfélag. Þessi framburðir hins nýja þular er ekki í samræmi við góða málvenju né heldur í samræmi við lög um Ríkisútvarpið þar sem segir að lögð skuli áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausri íslensku.
Í viðtali í Ríkisútvarpinu á dögunum talaði viðmælandi um gærnótt og átti við fyrrinótt - eða eins og sagt var forðum: hina fyrri nótt. Orðið gærnótt kemur aðeins einu sinni fyrir í ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands þar sem segir: Kammerráð Finsen sálaðist í gærnótt af febri nervosa. Tilvitnunin er frá árinu 1836 úr bréfi til Jóns Sigurðssonar, sem síðar var kallaður forseti. Bréfið er frá engum öðrum en Sveinbirni Egilssyni, skáldi, þýðanda og kennara við Bessastaðaskóla, læriföður Jónasar Hallgrímssonar. Orðið gærnótt er myndað á sama hátt og orðin gærdagur, gærkvöld og gærmorgun, en hefur ekki fest rætur í daglegu máli og málvöndunarmenn hafa amast við því í vönduðu máli. En þegar sjálfur Sveinbjörn Egilssona notar orðið er sannarlega úr vöndu að ráða!
Orðið gær merkir dagurinn fyrir daginn í dag, eins og lesendur þekkja. Orðið ellegar orðstofninn kemur fyrir í flestum indóevrópskum málum. Í færeysku heitir þetta gjár, í dönsku, norsku og sænsku går, í þýsku gestern, í forháþýsku gestaron, á ensku yesterday, en það orð gerðu The Beatles heimsfrægt með lagi sínu Yesterday á plötunni Help frá árinu 1965 en upphaf söngsins hljóðar þannig:
Yesterday, all my troubles seemed so far away
Now it looks as though they're here to stay
Oh, I believe in yesterday.
Orðið yesterday er komið úr fornensku: giestra dæg: dagurinn í gær. Í frönsku, sem að vísu er rómansk mál en af indóevrópsku málaættinni, heitir dagurinn fyrir daginn í dag hier. Í gotnesku, sem er elsta varðveitta germanska málið, var talað um gistradagis, sem merkir að vísu á morgun, enda er upphafleg merking orðstofnsins næsti dagur, þ.e.a.s. dagurinn á undan eða eftir deginum í dag. Í latínu er til lýsingarorðið hesternus sem notað er um það sem tilheyrir deginum í gær og í sanskrít er til orðið hyas sem mun merkja gærdagurinn. Þessi samtíningur sýnir m.a. skyldleika tungumála sem breiðst hafa út um jörðina.
Tryggvi Gíslason