100.000. gesturinn á þessum vetri kom í Hlíðarfjall í dag

Klukkan 14.00 í dag kom 100.000. gesturinn í Hlíðarfjall ofan Akureyrar á þessum vetri. Tíðarfar hefur verið skíðafólki einkar hagstætt: vertíðin hófst 28. nóvember og stendur enn í miklum blóma með nægum snjó og góðu skíðafæri.  

Gestur númer 100.000 var Sigríður Jónsdóttir sem var komin frá Húsavík til að renna sér á skíðum í sól og hita rétt um frostmark. Að launum fékk hún vetrarkort fyrir næsta vetur í Hlíðarfjalli og flugfar til Reykjavíkur með Flugfélagi Íslands sem er eitt af þeim fyrirtækjum sem fylla hópinn "Vinir Hlíðarfjalls" með stuðningi sínum.

Síðasta opnunarhelgi í Hlíðarfjalli er frá 30. apríl til 2. maí. Þá verður opið á föstudag frá kl. 13-21 og á laugardag og sunnudag frá 9-15.

Nýjast