10% fólksfækkun á Kópaskeri þegar tvær fjölskyldur flytja

Við höfnina á Kópaskeri. Mynd: Js
Við höfnina á Kópaskeri. Mynd: Js

Tvær til þrjár fjölskyldur, samtals 12 manns, eru að flytja búferlum frá Kópaskeri á næstunni og þetta þýðir einfaldlega að þorpsbúum fækkar um heil 10%.

Að sögn Jóns Grímssonar, fyrrum bæjarfulltrúa í Norðurþingi, sem búsettur er á Kópaskeri og er þar öllum hnútum  kunnugur, búa um 120-30 manns í þorpinu um þessar mundir, þannig að það lætur nærri að hér sé um 10% íbúafækkun að ræða á einu bretti.

Önnur fjölskyldan er spænsk og telur  samtals 6 manns og hefur búið á Kópaskeri í 2-3 ár. „Afbragðs fólk og mikill missir af því. En dóttir þeirra er í framhaldsskóla á Akureyri og það er einfaldlega dýrt fyrir foreldra að búa fjarri þeim menntastofnunum sem börnin þeirra stunda nám við, og það er kannski helsta ástæða þess að þau eru að fara. Og fleiri ástæður liggja auðvitað að baki hjá öðrum.“ Segir Jón.

Jón segir að fólkið sem er að fara frá Kópaskeri sé flest að flytja á suðvesturhornið eins og raunar eigi yfirhöfuð við um búferlaflutninga innanlands. „Þetta er eiginlega gegnumgangandi og hefur verið í áratugi. Þegar fólk tekur sig upp á smærri stöðum í dreifbýlinu, þá eru sárafáir sem flytja sig um set á næsta þéttbýlisstað eða þar næsta, til dæmis hvað Kópasker varðar, þá flytur fólk sjaldan þaðan til Húsavíkur eða Akureyrar, heldur fer alla leið á suðvesturhornið. Hið sama á yfirleitt við um fólk sem flytur frá Húsavík, það fer ekki til Akureyrar heldur beint suður.“

Nýlega var haldið íbúaþing í Öxarfirði þar sem rætt var um byggðina við fjörðinn og hvernig mætti efla hana og styrkja. Jón segir að þetta hafi verið ágætur fundur, en verkefnið Brothættar byggðir  væri raunar á upphafsreit í Öxarfirðinum en mun lengur hafi verið unnið að því á Raufarhöfn. „Að mínu viti og raunar er það skoðun fleiri,  var það fáránleg stefna í upphafi að taki ekki Raufarhöfn og byggðina við Öxarfjörð saman í þessu verkefni. M.a. vegna þess að eitt lykilatriðið sem menn voru að velta fyrir sér varðandi Raufarhöfn var uppbygging á ferðaþjónustu, og þar er mjög erfitt um vik nema í nánu samstarfi við landeigendur í kring. Það átti að vinna með þetta svæði sem eina heild frá byrjun.“ Segir Jón.

Aðspurður segir hann að íbúðarhúsnæði í þorpinu hafi ekki legið á lausu á undanförnum árum og m.a. staðið fjölgun fyrir þrifum þó nú losnaði eitthvað við þessar vendingar. „Fyrir um 20 árum bjuggu þegar flest var 198 manns á Kópaskeri, en fljótlega eftir að rækjuveiðar og vinnsla lögðust hér  af, fækkaði hratt niður í þetta 150 manns, og sá íbúafjöldi hélst í nokkur ár, en svo hefur sigið  meira á ógæfuhliðina á síðustu árum.“  Segir Jón Grímsson. JS

Nýjast