Vorið kallar á sterkar sveitarstjórnir

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður framsýnar.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður framsýnar.

Aðalsteinn Árni Baldursson skrifar


 

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar í Þingeyjarsýslum. Eins og alltaf er mikilvægt að hæft og áhugasamt fólk veljist til þessara mikilvægu starfa í þágu samfélagsins. Því miður hefur verið dapurlegt að fylgjast með því mikla brottfalli sem verið hefur meðal  kjörinna sveitarstjórnarmanna undanfarin misseri, sérstaklega hvað varðar sveitarfélagið Norðurþing. Það sama á við um æðstu stjórnendur sveitarfélaga sem hafa komið og farið. Þar á ég við sveitarstjóraskipti í Langanesbyggð og Skútustaðahreppi, svo ekki sé nú talað um vandræðaganginn sem verið hefur í yfirstjórn Norðurþings á yfirstandandi kjörtímabili sem fer í sögubækurnar. 

Ég kalla eftir meiri festu í sveitarstjórnarmálum. Á sínum tíma var tekin almenn ákvörðun um að lagfæra kjör sveitarstjórnarmanna með það að markmiði að bæta þeirra starfsumhverfi. Án efa var full þörf á því, en svo virðist sem það hafi ekki dugað til, sé tekið mið af brotthvarfi kjörinna fulltrúa úr sveitarstjórn Norðurþings. Hafa ber í huga að því fylgir töluverð ábyrgð að gefa kost á sér til slíkra starfa. Vissulega geta legið persónulegar ástæður fyrir brotthvarfi manna úr sveitarstjórn, sem ber að virða, en þetta er langt frá því að teljast eðlilegt.

Tækifæri á hverju horni

Verði rétt haldið á málum eru áhugaverðir tímar framundan í byggða- og atvinnumálum í Þingeyjarsýslum. Hvað það varðar er mikilvægt að sveitarfélög í Þingeyjarsýslum vinni betur saman og myndi mótvægi við önnur landsvæði með það að markmiði að laða til sín fleira fólk og fá fjölbreyttari atvinnustarfsemi inn á svæðið. Verandi formaður í stéttarfélagi hefur mér því miður fundist verulega skorta á þessa samstöðu. Í umboði félagsmanna hef ég barist fyrir því m.a. að viðhalda flugsamgöngum við Húsavík, endurbótum á Húsavíkurflugvelli, opinberri þjónustu, auknum verslunarrekstri og fjölbreyttari atvinnumöguleikum á svæðinu. Hvað það varðar var grátlegt að fylgjast með misvitrum sveitarstjórnarmönnum, með fáeinum undantekningum þó, eyðileggja Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

Atvinnuþróunarfélagið sem verið hefur mikilvægur samstarfsvettvangur sveitarstjórna og aðila vinnumarkaðarins í atvinnuuppbyggingu var sameinað inn í SSNE og lagt niður sem sjálfstætt atvinnuþróunarfélag með aðkomu fulltrúa atvinnulífsins. Eitt af forgangsmálum nýrra sveitarstjórna ætti að vera að ganga út úr þessu samstarfi við SSNE og ganga aftur til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um þennan mikilvæga málaflokk. Vonandi sjá nýir sveitarstjórnarmenn ljósið. Ég reikna reyndar ekki með því að þeir hafi pólitískan kjark til þess að gera breytingar til fyrra horfs, íbúum til hagsbóta.

Stoðirnar í atvinnulífinu

Lengi vel voru það landbúnaður og sjávarútvegur sem báru uppi atvinnulífið í Þingeyjarsýslum sem og opinber þjónusta ríkis og sveitarfélaga. Síðar kom öflug ferðaþjónusta til sögunar, PCC hóf iðnaðarstarfsemi á Bakka og nú eru hafnar gríðarlegar framkvæmdir í Kelduhverfi og Öxarfirði er tengist fiskeldi á landi, sem kallar á átak í byggingu íbúðarhúsnæðis á Kópaskeri og Húsavík með aðkomu Norðurþings. Mikil orka hefur verið beisluð á svæðinu á Þeistareykjum og í Kröflu. Mikilvægt er að sú orka verði notuð til að efla atvinnusvæðið okkar enn frekar. Við höfum PCC á Bakka sem þarfnast mikillar orku fyrir sína starfsemi. Nýtt verðandi sveitarfélag sunnan Húsavíkur sem verður til við sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hlýtur að horfa til þess að nýta orkuna á svæðinu til frekari atvinnusköpunar í sameinuðu sveitarfélagi. Það má ekki gerast að orkan verði flutt með háspennulínum til atvinnuuppbyggingar utan Þingeyjarsýslna, sem flest virðist reyndar benda til verði ekki brugðist við þegar í stað. Ætlum við virkilega að láta þá vistvænu orku sem kraumar undir fótum okkar renna okkur úr greipum? Tækifærin til atvinnusköpunar eru til staðar auðnist okkur að halda rétt á málum. Sem betur fer hefur svæðið verið að styrkjast en þessi barátta er endalaus, enda mikil samkeppni um íbúa og atvinnutækifæri milli landshluta. Á komandi árum verða sveitarfélögin að marka sér skýra byggða- og atvinnustefnu með það að markmiði að mæta kröfum nútímans í sátt og samlyndi við móður jörð. Þá er full ástæða til að skoða kosti þess og galla að sameina sveitarfélög í Þingeyjarsýslum í eitt öflugt sveitarfélag sem hafi burði til að veita íbúum sambærilega þjónustu og best gerist annars staðar. Þingeyingar hafa lengi verið stórhuga, það er góður eiginleiki sem ber að virkja til góðra verka, til uppbyggingar og sóknar. Annað er sóun á góðu hugviti og orku.

Aðalsteinn Árni Baldursson

 


Athugasemdir

Nýjast