Vonbrigði á aðventu

Eitt af því sem einkennir aðventuna hjá barnafjölskyldum eru blessuð aðventudagtölin, til að létta undir með börnunum að telja niður dagana fram að jólum.

Ég þráaðist lengi við og keypti ekki sælgætisdagatöl handa mínum strákum á aðventunni enda þótti mér nóg um sælgætisát þó ekki væri stórhátíð í aðsigi.

Lengi vel keypti ég leikfangadagatöl dýrum dómi, ýmist playmobil eða lego en eftir tilraunir síðust ára hef ég lagt það á hilluna. Enda er þetta óttalegt drasl, strákarnir missa fljótt áhugann og maður er tínandi þessi smáleikföng upp af gólfinu og undan sófum alla aðventuna. Hingað og ekki lengra!

Í ár hallaði ég mér að sælgætinu og ekki vantar úrvalið af slíkum varningi í litlu heimaversluninni á Húsavík. Það varð vart við valkvíða en að lokum endaði ég á einhverju innfluttu drasli. Strákarnir urðu himinlifandi og ég glotti við tönn þegar ég sendi þá nýsykraða í skólann á morgnanna.

Þegar ég var að alast upp fyrir æði mörgum árum, þá var ekki um þennan valkvíða að ræða hjá foreldrum. Einu sælgætisdagatölin sem voru til sölu voru súkkulaðidagatöl Lions. Þó þetta hafi verið fyrir mörgum árum, þá var samt farið að gæta umræðu um hollustu og þá sérstakleg tannhirðu. Lionsklúbbar þessa tíma hugsuðu í lausnum og með fylgdi lítil tannkremstúba, málið var dautt!

Og auðvitað fengu allir mínir jafnaldrar svona Lions súkkulaðidagatöl enda geysivinsæl. Sjálfur þurfti ég að gera mér að góðu happdrættis-jóladagatal Framsóknarflokksins. Já þið lásuð rétt!

Í þessum dagatölum var ekki snefill af súkkulaði og í mínu tilfelli engir vinningar heldur. Gríðarleg vonbrigði en þegar ég eltist gerði ég mér grein fyrir að framsóknardagatölin voru mikilvægt veganesti inn í lífsbaráttu fullorðinsáranna; að verða fyrir vonbrigðum með Framsóknarflokkinn.

Egill P. Egilsson


Athugasemdir

Nýjast