Við eigum að berjast fyrir því að krakkarnir okkar hafi áfram val.

Ásta F. Flosadóttir Verkefnastjóri fjölskyldumála hjá Þingeyjarsveit.
Ásta F. Flosadóttir Verkefnastjóri fjölskyldumála hjá Þingeyjarsveit.

Nærri aldarfjórðungs starf með ungu fólki hefur kennt mér að unga kynslóðin hefur rödd og skoðanir sem vert er að hlusta á. Þessi afstaða Hugins kemur ekki á óvart en það gleður kennarahjartað að finna eldmóðinn sem býr að baki þessari yfirlýsingu. 

MA og VMA þekki ég nokkuð vel, hef kennt í báðum skólum (þó vissulega séu nokkur ár síðan), farið í ótal skólaheimsóknir með 10. bekkinga og átt börn í báðum skólum.

MA og VMA eru gjörólíkir skólar, mismunandi menning, skólagerð, hefðir og saga. Og það er beggja stærsti kostur. Oft hef ég setið með 10. bekkingum að skoða námsframboð og heimasíður skólanna á svæðinu, rætt málin og aðstoðað þau við leitina að réttu hillunni, rétta náminu, rétta skólanum. Það hentar ekki öllum það sama.

Að hafa val og fjölbreytni er einn af mikilvægustu kostum skólabæjarins Akureyrar. Því sakna ég mjög að heyra í bæjarfulltrúum og sveitarstjórnarfólki hér í nágreninu. Er það í alvörunni betra fyrir okkur hér á svæðinu að dregið sé úr fjölbreytileika með því að steypa þessum ólíku skólum saman? Við eigum að berjast fyrir því að krakkarnir okkar hafi áfram val. Þarna erum við að tala um að steypa saman stærstu framhaldsskólum fjórðungsins, í hvaða stöðu verða Laugaskóli, framhaldsskólinn á Húsavík og Tröllaskaga við hlið 1800 nemenda skóla á Akureyri?

Og nú ætla ég að fá að vera foreldri í smá stund. Ég á barn sem stundaði nám í MA og naut þess. Barn sem þurfti á bekkjarkerfinu og hefðunum að halda. Svo á ég barn sem stundar nú nám í VMA og nýtur þess í botn. Í báðum tilfellum var auðvelt að beina þeim í rétta skólann. Bæði fengu það sem þau þurftu og það án þess að þurfa að flytjast úr landshlutanum. Mér finnst það ferleg tilhugsun að sá yngsti muni ekki hafa sama val. Stórkostleg afturför.

Og nemendur MA hafa greinilega séð í gegnum ráðabrugg ráðherra; þetta snýst nefnilega bara um að spara. Það lýsir skammsýni og metnaðarleysi sem ég hélt satt að segja að þessi ráðherra væri ekki hrjáður af.

Jæja, er það ekkert undarlegt að í allri þessari sameiningarumræðu framhaldsskólanna skuli augljósasti sameiningarkosturinn aldrei vera ræddur? Eini kosturinn sem raunverulega myndi auka hagræði, án þess að draga úr valmöguleikum nemenda á svæðinu. Ef einhverja skóla ætti að sameina þá eru það framhaldsskólarnir við Tjörnina, bókstaflega á sömu lóðinni. Bóknámsskólar með bekkjarkerfi, svipaðar áherslur og sögu.

Og er ekki bara komið nóg af höggum á framhaldsskólann, ekki er enn séð fyrir endann á afleiðingum styttingarinnar. Sem af mörgu reyndu skólafólki er álitið vera eitt stærsta skemmdarverk sem unnið hefur verið á íslenska menntakerfinu.

Nei, minn kæri Ásmundur Einar Daðason, leyfðu framhaldsskólunum á Akureyri að halda áfram að blómstra og leggja áherslu á sína sérstöðu. Nú er tími til að hlusta á nemendur. Þau vita í hvernig framhaldsskóla þau vilja vera.


Athugasemdir

Nýjast