Um bleikjuveiði í Eyjafirði

Sigmundur Einar Ófeigsson skrifar
Sigmundur Einar Ófeigsson skrifar

Ég ákvað að setja nokkur orð um stöðu bleikjunnar við Eyjafjörð. Í fjörðinn falla fimm öflug veiðivötn með mikla bleikjuveiði, árnar sem eru nánast bara með bleikjuveiði eru fjórar, Eyjafjarðará, Hörgá, Svarfaðardalsá og Ólafsfjarðará. auk þessa fjögurra áa er Fnjóská með all nokkra laxveiði auk nokkuð mikla bleikjuveiði.
Á síðustu árum hefur bleikjuveiði allra þessa vatnsfalla því miður minnkað gríðarlega og er svo komið að öll þessi vatnsföll eru vart með sjálfbæra bleikjustofna. Væntanlega eru það umhvefisþættir (hitnandi loftslag) sem vega þar þyngst en ágangur mannsins, veiðimenn telja líka og eru það þættir sem við getum haft áhrif á, við ráðum litlu um loftslagsbreytingar. Svo við verðum að gera það sem við getum til að hjálpa þessum vatnsföllum. Þessi vatnsföll geta ekki viðhaldið stofnunum nema með einhverjum viðbrögðum og stuðningi.
Ég vona að þetta línurit hér að neðan útskýri aðeins þá stöðu sem við erum í varðandi bleikuna við Eyjafjörð.

Hér sést vel hvað er að gerast. Meðal ársveiði þriggja 11 ára tímabila er eftirfarandi: 11 ára tímabil 1990 til 2000 var meðal ársveiði 4.962 stangveiddar bleikjur, 11 árin 2001 til 2011 var meðal ársveiðin 3.406 stangveiddar bleikjur og meðal ársveiðin 11 áranna 2012 til 2022 var 1.614 stangveiddar bleikjur. Þetta er auðvitað algert hrun. Upp í horninu hægra megin má einnig sjá hverja á fyrir sig. Þarna sést líka að lang verstu árin er síðustu 3 ár. Svo það er skiljanlegt að menn vilji grípa til mótvægisaðgerða. Það hefur aðeins verið gripið til slíkra aðgerða svo sem er Fiskistofa breytti ósamati Eyjafjarðarár en nú nær ós árinnar út að línu sem liggur þvert yfir fjörðinn frá Norðlenska og yfir á Hallandsnes. Þar með tilheyrir allur pollurinn Eyjafjarðará. (sjá mynd hér að neðan) Við þetta lengist Eyjafjarðará en ljóst er að þverun Leiranna og brú hafði mikil áhrif á rennsli árinnar, sandburð og í raun setti ána meira í einn farveg og því var þessu svæði bætt við ána og nýr breyttur ós skilgreindur, því er þetta svæði á ábyrgð Veiðifélags Eyjafjarðarár.

Við lagabreytingu 2006 var gerð umtalsverð breyting á lögum um lax og silungsveiðar m.a. að Laxveiðar voru alfarið bannaðar í sjó og göngusilungsveiðar, (bleikja og urriði (sjóbirtingur)) voru einnig bannaðar nema í netalögum jarða sem eru með leyfi og hafa sannað rétt sinn til slíkra veiða samanber lög um lax og silungsveiðar. Það er því nú alfarið á ábyrgð Veiðifélags Eyjafjarðarár að fylgja eftir veiði eftirliti á pollinum og einnig er ábyrgð annarra veiðifélaga við Eyjaförðinn að fylgja eftir þessum lögum um bann við silungsveiðum í sjó. Þessar veiðar báta á pollinum og í Eyjafirði öllum eru því augljóslega algerlega á skjön við lög um veiðar á Laxi og veiðar á göngusilungi. Ég vona að trillusjómenn virði þessi lög, þau eru ekki sett af veiðifélögunum heldur voru sett af Alþingi 2006.

Hér að neðan eru nokkrar greinar þessa laga sem beint eiga við þessi málefni sem ég hef verið að skrifa um, hér er einnig tengill á lögin:

https://www.althingi.is/lagas/nuna/2006061.html

15. gr. Veiðar göngusilungs í sjó.

Ekki má veiða göngusilung í sjó. Slíkar veiðar eru þó heimilar í netlögum sjávarjarða og skulu þær hlíta sömu reglum og veiði silungs í ósöltu vatni eftir því sem við getur átt.

Við veiðar göngusilungs í fastar veiðivélar í netlögum einstakra sjávarjarða skal miða við þann netafjölda sem viðkomandi fasteign hafði síðustu fimm ár fyrir gildistöku laga um lax- og silungsveiði, nr. 53/1957. [Fiskistofa] 1) skal halda skrá um framangreindan rétt sjávarjarða til netaveiði í netlögum og sinna eftirliti með þeim veiðum í samræmi við ákvæði laga þessara.

Á tímabilinu 1. apríl til 1. október ár hvert má ekki leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns, sem fiskur gengur í, en 1.500 metra ef meðalvatnsmagn ár er innan við 25 m 3 á sekúndu en 2.000 metra ef vatnsmagnið er meira. Gangi lax í straumvatn má þó aldrei leggja net né hafa ádrátt í sjó nær en 2.000 metra. Á framangreindu tímabili má ekki leggja net né hafa ádrátt í sjó nær hafbeitarstöð í starfrækslu en 1.500 metra.

[Fiskistofu] 1) er að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni veiðifélaga eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög, sem hagsmuna eiga að gæta heimilt með reglum 2) að takmarka eða banna á tilteknum svæðum og um tiltekinn tíma veiði silungs samkvæmt grein þessari, ef slíkt er nauðsynlegt, til þess að tryggja fiskigengd í nærliggjandi veiðivötn.

21. gr. Ósaveiðar.

Eigi má veiða fisk með föstum veiðivélum í ósum í ár eða ósum í stöðuvötn og eigi 100 metra upp frá slíkum ósum eða 250 metra niður frá þeim. Eigi má heldur veiða fisk með föstum veiðivélum í ósum úr stöðuvötnum þeim er lax eða göngusilungur fer um né 50 metra
upp eða niður frá slíkum ósum.

[Fiskistofa] 1) getur, að ósk hlutaðeigandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög, að fenginni umsögn [Hafrannsóknastofnunar], 2) bannað eða takmarkað umfram það sem greinir í 1. mgr. alla veiði eða tilteknar veiðiaðferðir, þar með talið stangveiði, upp eða niður frá ósi, enda þyki slíkt nauðsynlegt vegna fiskigengdar og viðhalds veiði í vatninu.

Eins og fólk sér þá er alveg ljóst að allar veiðar bæði lax og göngusilungs báta eru ekki leyfilegar á pollinum. Það er í raun engin veiði laxa og göngusilunga heimil á eða frá ströndum við fjörðinn nema frá þeim bæjum sem hafa gilt netaleyfi og hafa leitað eftir staðfestingu á sínum veiðirétti samanber 15 grein aðra málsgrein hér að ofan.


Athugasemdir

Nýjast