Til hvers?

Ragnar Sverrisson skrifar
Ragnar Sverrisson skrifar

Ragnar Sverrisson kaupmaður skrifar

Nú þykir mér moldin vera farin að fjúka í logninu. Þau tíðindi berast frá bæjarstjórn  Akureyrar að til standi að halda almennan kynningarfund í vor þar sem íbúum bæjarins gefst kostur á að kynna hugmyndir sínar að skilmálum fyrir hugmyndasamkeppni um skipulag Akureyrarvallar. Okkur gefst sem sagt kostur á að leggja orð í belg í þessu mikilvæga málefni. En hver er raunverulegur áhugi bæjarfulltrúa á að gera eitthvað með álit bæjarbúa?  Síðustu árin hafa þeir nákvæmlega ekkert gert með ábendingar frá almúganum í bænum og farið sínu fram innan lokaðra dyra eins og best sést á þeim holskurði sem þessi sama bæjarstjórn gerði á síðasta ári  á miðbæjarskipulaginu sem samþykkt var samhljóða árið 2014. Ekkert samráð, ekkert samtal við bæjarbúa og öllum athugasemdum hent í ruslatunnuna og þar að auki vikið frá öllum grundvallarábendingum fjölmennasta íbúaþings Íslandssögunnar sem fjallaði einmitt um þetta skipulag. 

 Allt á haugana

Það virkar því eins og hver annar brandari þegar bæjarstjórnin leitar nú eftir hugmyndum bæjarbúa og gefur í skyn að eitthvað verði gert með þær.  Sjálfur vann ég baki brotnu með mjög áhugasömu fólki að áðurnefndu íbúaþingi þar sem 10% bæjarbúa eyddu heilum degi saman og komust að markverðum niðurstöðum. Síðan var efnt til alþjóðlegrar arkitektasamkeppni á grundvelli þeirra þar sem komu fram yfir 150 tillögur að skipulagi miðbæjarins og bænum fært að gjöf. Þegar upp var staðið eftir langt ferli var þakklætið ekki meira en það að bæjarstjórnin varpaði allri þessari vinnu út í hafsauga af miklu oflæti. Sjálfur lagði ég á síðustu metrunum til við forseta bæjarstjórnar að efnt yrði til íbúaþings um breytingarnar sem gerðar voru á skipulaginu frá 2014 en því var heldur ekki ansað. Ekki einu sagt nei – bara þögn. 

 Embættismenn taka völdin

Bæjarfulltrúum til varnar má þó minna á ofríki embættismanna í stjórnkerfinu. Fyrir nokkru skrifaði fyrrum skipulagsstjóri bæjarins, Bjarki Jóhannesson, þegar hann minntist þess fagnandi að hafa mulið bæjarfulltrúa undir sinn vilja varðandi miðbæjarskipulagið: „Mér tókst að afstýra þessu við lítinn fögnuð Loga Einarssonar sem reyndi að banna mér að skipta mér af því.” Já, meira að segja kjörinn bæjarfulltrúi vogaði sér að andæfa sjálfum embættismanninum.  Er Logi þó bæði sérfræðingur í skipulagsmálum og með stefnufastari bæjarfulltrúum síðari ára. Hann varð undan að láta.  Hvað verður þá um aðra bæjarfulltrúa í slíkri mulningsvél sem ekki eru jafn fastir fyrir. Í þessu dæmi endurspeglaðist átakanlega áhrifaleysi kjörinna bæjarfulltrúa gagnvart starfsmönnum bæjarins svo ekki sé nú talað um þá fjarstæðu að venjulegir bæjarbúar hafi eitthvað að segja.    

 Hvað nú?

Varðandi Akureyrarvöll og nýtingu hans hefur undirritaður nýlega varpað fram hugmynd í þessu virðulega blaði þar sem gert er ráð fyrir að nýtt ráðhús verði miðpunktur á umræddu svæði. Ekki hafa bæjarfulltrúar séð ástæðu til að bregðast við þeirri hugmynd enda þótt ég hafi orðið var við töluverðan áhuga annarra. Þögnin er hið ríkjandi ástand á þeim bænum og ekki merkjanlegur bati þrátt fyrir fögur fyrirheit um að nú verði hlustað. Það væri strax gott innlegg ef bæjarfulltrúar lýstu yfir, áður en lengra er haldið, að í þetta skipti verði jafnvel tekið tillit til ábendinga bæjarbúa. Fyrr en það gerist sýnir reynslan að það er ekkert nema tímaeyðsla að reyna að koma skoðunum sínum um þetta málefni á framfæri.

Ragnar Sverrisson kaupmaður

 


Athugasemdir

Nýjast