Til hamingju „Stéttin“ á Húsavík

Katrín Sigurjónsdóttir skrifar

Föstudaginn 9. desember nk. fer fram formleg vígsla Stéttarinnar, nýrrar aðstöðu þekkingarklasans við Hafnarstéttina á Húsavík. Stéttin er samheiti samfélags stofnana sem þarna eru til húsa og starfa á sviði menntunar, rannsókna, atvinnuþróunar og nýsköpunar.

Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings þann 1. desember sl. var samþykkt að ganga frá rekstrarsamningi til eins árs við Hraðið, miðstöð nýsköpunar á Stéttinni og var eftirfarandi bókað af því tilefni:

„Sveitarstjórn telur mikil samfélagsleg verðmæti felast í því samstarfi sem átt hefur sér stað á milli heimafjárfestis og stofnana sem byggðar hafa verið upp á síðustu árum og reknar eru fyrir rekstrarframlag frá ríkinu ásamt sjálfsaflafé. Þarna hefur tekist einstaklega vel til svo eftir er tekið. Nú þegar tekur Sveitarstjórn Norðurþings þátt í að fjármagna rekstur FabLab Húsavík.

Sveitarstjórn telur eðlilegt að Norðurþing taki virkan þátt og styðji við þessa mikilvægu innviði, sem líklegir eru til að auka enn aðdráttarafl Húsavíkur sem búsetukosts, ekki síst fyrir yngra fólk á vinnumarkaði og frumkvöðla á atvinnumarkaði svæðisins.“

Önnur fyrirtæki á Stéttinni sem njóta fjárframlaga eða styrktarsamninga við Norðurþing eru SSNE, Samtök sveitarfélaga á Norðausturlandi og Náttúrustofa Norðausturlands.

Mikilvægur þáttur þessa framsækna  framtaks á Hafnarstéttinni á Húsavík er fjárfesting og uppbygging í húsnæðiskostinum á vegum heimafyrirtækisins Langaness ehf. í eigu Bjarna Aðalgeirssonar og fjölskyldu.  Það er sérstaklega lofsvert þegar samvinna af samfélagslegum metnaði næst um framtak af þessu tagi. 

Hrávörur eru takmörkuð auðlind í heiminum og því er nýsköpun og þekkingariðnaður grunnur að nýjum framtíðartækifærum. Í nýsköpun fara saman þekking, hugvit og nýjar uppgötvanir við lausnum á verkefnum nútímans og framtíðarinnar. Líklegt er að hugvit verði orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar innan ekki svo margra ára.

Samvinna og samtal innan klasans á Stéttinni er líkleg til að ýta undir samstarf ólíkra aðila um nýjar lausnir, uppgötvanir, hönnun, tækniþróun og lausnir. Þarna skapast betri aðgangur að sérhæfðri þekkingu, færni, samtali og aðstoð til að þróa hugmyndir í átt að veruleika. Tilvera Stéttarinnar styrkir þekkingarsamfélagið og eykur samkeppnishæfni sveitarfélagsins.

Það er ástæða til að þakka þeim sem hafa staðið í brúnni við uppbyggingu þekkingarklasans á Stéttinni. Uppbyggingin hefur verið jöfn og hröð og spannar um 20 ár, frá engu stöðugildi upp í um 30 stöðugildi í dag. Þróunin hefur verið dregin áfram af starfsfólki og frumkvöðlum þekkingarinnviðanna sjálfra og útkoman er þessi glæsilega heild, umgjörð og aðstaða sem er nú vígð undir nafninu Stéttin. Frábært starf sem horft er til alls staðar af landinu, sómi byggðarlagsins okkar, takk.

Við íbúar Norðurþings getum sannarlega verið stolt af starfsemin á Stéttinni, til hamingju öll.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings.


Athugasemdir

Nýjast