Þroskaþjálfar

Skógarlundur
Skógarlundur
Þroskaþjálfar eru fagstétt sem sérstaklega hefur menntað sig til starfa með fólki á öllum aldri með langvarandi stuðningsþarfir. Hugmyndafræði stéttarinnar byggist á virðingu fyrir mannréttindum, frelsi og sjálfsákvörðunarrétti. Þroskaþjálfafræði er fjögurra ára háskólanám og kennt við Háskóla Íslands. Námið byggir á félagslegum skilningi á fötlun, margbreytileika og óendanlegu verðmæti hverrar manneskju. Meðal viðfangsefna í náminu eru: Þroskaþjálfafræði, fötlunarfræði, þroskasálfræði, siðfræði, óhefðbundnar tjáskiptaleiðir, fjölskyldur og samvinna, forysta og heildræn þjónusta og mannréttindi.
Hlutverk þroskaþjálfa hefur ætíð verið að stuðla að velferð fatlaðs fólks, fyrst í formi þjálfunar og umönnunar en nú einnig í formi þess að styðja við og stuðla að sjálfstæðu lífi og fullri samfélagsþátttöku.
 
Þroskaþjálfafélag Íslands telur mikilvægt að þeir sem stýra og bera ábyrgð á þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir hafi menntun, þekkingu og reynslu við hæfi. Gæði þjónustunnar ræðst af skipulagi hennar, stýringu og framkvæmd. Þroskaþjálfar eru eina fagstéttin sem sérstaklega hefur menntað sig til þess að starfa með fólki með fötlun. Þeir hafa víðtæka og hagnýta þekkingu, annars vegar á sviði stefnumótunar, skipulags og framkvæmdar heildrænnar þjónustu og hins vegar á persónumiðaðrar þjónustu óháð aldri og aðstæðum fólks. Þroskaþjálfafélag Íslands telur að hlutfall fagmenntaðra starfsmanna haldist í hendur við gæði þjónustunnar sem verið er að veita.
 
Í Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar starfa fimm þroskaþjálfar. Þeirra lykilhlutverk, ásamt öðrum starfsmönnum í Skógarlundi er stuðningur, leiðsögn, umönnun og aðstoð við þá sem nýta þjónustuna. Verkefnin eru breytileg eftir þörfum og óskum hvers og eins og leitast er við að mæta þörfum fólks og skapa aðstæður til að það hafi frelsi til að taka eigin ákvarðanir. Starfsemi Skógarlundar fer fram á níu starfsstöðvum og verkefni hverrar starfsstöðvar eru skýr og skipulögð. Markmiðið með starfsstöðvunum er að bjóða upp á fjölbreyttari vinnu og virkni fyrir alla. Allir sem koma í Skógarlund vinna á tveimur starfsstöðvum á dag og verkefnin eru aðlöguð að hverjum og einum.
 
Störf þroskaþjálfa í Skógarlundi felast m.a. í ;
• að skipuleggja og bjóða upp á einstaklingsmiðaða, heildstæða og sveigjanlega þjónustu
• að hafa yfirsýn og halda utan um þætti sem varða velferð og hagsmuni allra þeirra sem koma í Skógarlund
• að þjálfa og efla færni í daglegu lífi
• að vinna eftir hugmyndafræði um þjónandi leiðsögn
• að aðlaga verkefnin á hverri starfsstöð þannig að sem flestir geti nýtt sér þau
• að þekkja þau hjálpartæki og þann búnað sem til er og geta nýtt hann til að auka lífsgæði og þátttöku
• að mæta fólki þar sem það er statt varðandi vinnu / virkni, samskipti og í félagslegum aðstæðum
• að geta nýtt sér hugmyndafræði TEACCH um skipulögð vinnubrögð
• að þekkja óhefðbundnar tjáskiptaleiðir og geta fundið þær leiðir sem henta hverjum og einum best
• að efla og styrkja sjálfsákvörðunarrétt og val
• að gera persónubundnar þjónustuáætlanir
• að stuðla að þátttöku í samfélaginu
• að veita öðrum starfsmönnum stuðning og leiðsögn.
Við þroskaþjálfar í Skógarlundi teljum mikilvægt að auka hlutfall þroskaþjálfa í störfum þar sem einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir þurfa á þjónustu að halda. Samvinna fagstétta er mikilvæg og í Skógarlundi starfa einnig iðjuþjálfar, félagsliðar, íþróttafræðingur, starfsmaður með BA í sálfræði og aðrir reyndir starfsmenn. Besta mögulega lausnin fæst alltaf þegar allir leggja sína þekkingu á vogarskálarnar og þannig teljum við að við mætum þörfum þeirra sem koma í Skógarlund best.
 
Í greininni er stuðst við upplýsingar frá HÍ, starfskenningu þroskaþjálfa, yfirlýsingu þroskaþjálfafélagsins og starfslýsingum þroskaþjálfa í Skógarlundi.
Unnið af:
Berglindi Hörpu, Emblu Rún, Ester, Lilju Birnu og Ragnheiði, þroskaþjálfum í Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar á Akureyri.

Athugasemdir

Nýjast