Sumarfrí

Fjóla Stefánsdóttir
Fjóla Stefánsdóttir

Í dag er fyrsti dagur í sumarfríi. Sumarfrí, þetta orð er eins og tónlist í eyrum mínum.

Fjóla

Hvað ætla ég að gera í sumarfríinu? Ég vinn  á hjúkrunarheimili. Gott heimili með góðu fólki bæði íbúum og starfsfólki. Vinnustaður sem hefur mótað mig, gert mig að betri manneskju. Ég er hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður. Það að láta fjármál og umönnun passa saman er ekki einfalt. Hvernig þjónustu viljum við veita eldri íbúum okkar?

Það sem einkennir þennan hóp er æðruleysi og nægjusemi. Ég hef eignast marga vini og átt mörg samtölin um lífið, reynslu, sorgir, vonbrigði, vonir og drauma. Eitt samtalið er mér mjög minnistætt og það á ekki síður við í dag en það gerði fyrir mörgum árum.

Ég sit á rúmstokknum hjá konu sem er við það að fara kveðja. Hún hvíslar að mér: Veistu hvernig Guð lítur út? Nei, segi ég, en mig grunar að þú vitir það. Þá segir hún með smá bros á vör: HÚN er svört....  Mikið hafði hún til síns máls.

Í dag eru svo sannarlega breyttir tímar frá því að vinir mínir á Grenilundi voru upp á sitt besta.  Mesta breytingin eru netmiðlar og þetta sífellda áreiti. Streita hefur aukist og við þurfum helst að vera á tveimur stöðum í einu. Þá er gott að geta andað léttara og farið í sumarfrí. Í sumarfríinu ætla ég aldeilis að ná mér á strik. Ég ætla að vera dugleg að hjóla á nýja rafmagnshjólinu mínu. Það er líka gott að taka nokkra hringi á morgnana á götuhjólinu það reynir meira á. Ég fékk mér nýja skó, svona utanvegahlaupaskó, ég á eftir að prufa þá. Ég ætla að laga til í skápum, eitthvað sem ég hef frestað lengi. Ég ætla að ganga á fjöll með Auddu vinkonu (kannski ætti ég að æfa mig og ganga upp á Höfðann í dag). Ég þarf að kaupa sumarblóm. Ég vona að það verði gott veður fyrir vestan, við hjónin ætlum að fara Vestfirðina með hjólhýsið í sumar. 

Þetta hugsa ég yfir morgunkaffinu um leið og ég renni yfir helstu vefmiðla. Ég legg frá mér lesgleraugun og man þá að ég á eftir að taka vítamínin. Kaffið rennur ljúflega niður og hjartslátturinn eykst. Ég fer út á götuhjólið og hugsa þegar ég  hjóla upp Skólahúsbrekkuna. Ég er miðaldra kona í skrautlegum hjólafötum með nýju hjólagleraugun, Dimma hjómar í eyrunum. Ég hef ekki náð að tileinka mér það að vera nægjusöm. En ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því núna.  Ég er í sumarfríi.

Ég skora á Finn Yngva Kristinsson sveitarstjóra í Eyjafjarðarsveit að taka við keflinu.

Fjóla Stefánsdóttir


Nýjast