Stelpurnar okkar

Anna Hildur Guðmundsdóttir.
Anna Hildur Guðmundsdóttir.

Stelpurnar okkar, já stelpurnar okkar.  Má ekki ennþá vera að fagna þó svo það séu liðnar 3 vikur frá því KA/ÞÓR urðu Íslandsmeistarar í Olísdeildinni. Jú jú ég segi það allavega.

Ég er íþróttamamma. Og hvað er það í mínum augum, jú ég á barn sem er í íþróttum.  Ég var aldrei í íþróttum, æfði jú að vísu handbolta hjá Þór í smá stund, minnir mig, en ég á ekki langa sögu að æfa íþróttir.

Dætur mínar hafa prófað að æfa allskonar íþróttir. Við bjuggum í Reykjavík og ég man þegar eldri stelpan átti að keppa á sínu fyrsta alvöru fimleikamóti.  Það var í Keflavík og hún átti að fara með félaginu sínu í rútu og vera allann daginn þar.  Ég ætlaði að koma að horfa á.  En ég komst ekki og ég gleymi aldrei vonbrigðunum hjá henni þegar hún kom heim og spurði hvar ég hefði verið!!!  Ég fæ enn vont í hjartað þegar ég hugsa um þetta 16 árum seinna.

Síðan þá hef ég reynt af fremsta megni að taka þátt í íþróttaiðkun dætra minna. Ég hef skutlað og sótt á æfingar, ég hef tekið þátt í fjáröflunum, selt allskonar,  ég hef þrifið klósett á N1 mótinu, ég hef smurt nesti fyrir íþróttaferðalög, ég hef farið sem fararstjóri og sofið á þunnum dýnum, ég hef hvatt áfram, ég hef tekið samtalið um hvað þetta er gott og skemmtilegt, ég hef nöldrað um mikilvægi svefns, ég hef skammað um að nú sé verið að æfa of mikið, ég hef minnt á matartíma og ég hef útskýrt að það þarf að færa fórnir til að ná árangri og þetta á allt eftir að borga sig einn daginn.

Og svei mér þá, það gerðist.

Liðið okkar, handboltaliðið okkar, stelpurnar okkar eru deildarmeistarar, meistarar meistaranna og íslandsmeistarar.  Okkar allra hérna á Akureyri. KA/Þór.  Ekki bara KA sigur eða Þórs sigur, heldur sameinað lið sem er besta lið landsins.  Stelpur sem eru héðan, það þarf ekki að vera í einhverju stóru liði í Reykjavík til að ná árangri. Við erum besta liðið.

Þessar stelpur eru  miklar fyrirmyndir, þær eru svo duglegar, og búnar að leggja helling á sig til að ná þessum árangri.  Það er búið að sitja í rútu í allskonar veðrum, það er sko til sérstakt rútuteppi á heimilinu. Það er ekki bara að æfa og mæta í leik, nei nei.  Ferðalagið tekur líka sinn tíma, því öll hin liðin eru jú alveg hinu megin á landinu.  En þetta skilar sér í samheldni og liðsheild.  Þessar stelpur þekkja hvor aðra mjög vel, og treysta hvor annarri jafn innan sem utan vallar.  Þær vita hvað þær eru og hvað þær geta.

En af hverju er ég að tala um þetta, jú því þær þurfa stuðning, og fjárstuðning.  Þetta kostar allt og núna þurfa fyrirtæki á svæðinu að bakka þetta flotta lið enn betur upp.  Framundan er Evrópukeppnin. Og það þarf að eiga fyrir henni. Þær eru að gera þetta líka fyrir okkur, því þetta skapar samstöðu og gleði.  Það er svo gaman þegar maður sér fólk ná árangri í sínum áhugamálum, því þetta er jú áhugamálið þeirra, þær eru flest allar í fullu starfi og/eða í skóla. Þetta eru stelpurnar okkar og við þurfum að styðja og hvetja þær áfram.  Það er allt hægt.  Þær sýndu okkur það.  Þær eru bestar á landinu, lið KA/Þórs í handbolta.  Áfram KA/ÞÓR

Ég skora á Sunnu Hlín Jóhannnesdóttur kennara, sem er með mér í Frístundaráðinu, í að skrifa næsta pistil. Ég veit að hún getur sagt frá einhverju skemmtilegu.

-Anna Hildur Guðmundsdóttir.

 

 


Nýjast