Skýjaborgir, framhald

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Í framhaldi greinar sem ég fékk birta hér í síðustu viku vil ég svara ýmsum mótbárum sem hafa birst gegn því andófi sem haldið er uppi gegn fyrirhuguðum háhýsum á Oddeyri, á fésbókinni sem og annars staðar bæði fyrir og eftir birtingu greinarinnar.

Þetta með að stór og hávaxin skemmtiferðaskip leggist reglulega að Faxakantinum, þvert á stefnu flugbrautarinnar, er skondin „röksemdarfærsla“. Skipin koma og fara, meðan færanleika fjölbýlishúsanna er að mínu mati fremur ábótavant. Þá eru komur þessara skipa bundnar við sumartímann, meðan þörf fyrir aðflug og brottflug við blindflugsskilyrði er langmest að vetri til. Það skarast að vísu gjarnan um vor og haust auk þess sem þoka er svosem ekkert óþekkt á sumrin, en það er afar sjaldgæft að þetta verði til vandræða. Þó tel ég ástæðu til að skerpa á samvinnu milli hafnarsamlagsins og Isavia/flugturnsins á Akureyri, hvað þetta varðar.

Borið hefur á samanburði á þessu máli og aðstæðum í Reykjavík. Þar er verið að bera saman hindranir sem eru til staðar nú þegar annars vegar, og þessa manngerðu hindrun sem ekki er til staðar enn sem komið er, en er fyrirhuguð þar sem einhverja úti í bæ langar að reisa hana fyrir bissness! Vitaskuld er alger óþarfi að reisa nýja hindrun fyrir flugumferð á stuttri lokastefnu eða í frumbrottflugi hér á Akureyri, jafnvel þótt einhverjir telji sig geta grætt á því. Auk þess eru tilteknar húsbyggingar sem nefndar hafa verið í þessu sambandi umhverfis Reykjavíkurflugvöll langt í frá jafn svæsnar hindranir og háhýsin á Oddeyri verða, bæði hvað varðar hæð og fjarlægð frá flugbrautum þar og/eða varðandi nálægð við brautarstefnur. Og þótt reglur um hindranafleti í þessum flugferlum geri ráð fyrir að öll flugumferð sé í ákv. lágmarkshæð yfir Oddeyrinni, geta einstaka atvik brugðið út af því eins og ég rakti í fyrri grein minni. Þá eru aðstæður hér sérstakar að því leyti að hér er þröngur fjörður og stutt á milli hamraveggja sem setur okkur skorður, sem ekki eru fyrir hendi í Reykjavík né víðast annars staðar. M.ö.o, hér verður ekki svo glatt vikið fram hjá svona hindrun við blindflugsskilyrði, vegna annarra og meiri hindrana sem þá verða skammt undan.

Einn vitringur baunaði því á mig að ef þetta væri vandamál, hvað væri þá hægt að segja varðandi flugtak til suðurs á Akureyri, inn í allan fjallasalinn þar? Eins og þetta afsaki á einhvern hátt væntanlega tilurð nýrrar manngerðrar hindrunar norðan megin! En um þetta er að segja að dalbotninn inn úr firðinum er í lítilli hæð yfir sjávarmáli í allt að 25 til 30 mílur. Á slíkri vegalengd má vænta að flugmönnum takist að lágmarka neyðarástandið, jafnvel í svo alvarlegu atviki eins og ég lýsti í fyrri greininni, og ná aukinni hæð sem gæti gefið aukið svigrúm til að snúa vélinni við, eða ná uppfyrir allar hindranir. Þessi leið er vörðuð leiðsöguvitum (við Kristnes, Torfur og Nýja Botn) auk aðflugsgeislans sem liggur á sömu leið og sem auðvelt er að fylgja í blindflugi. Þess utan má jafnvel notast við radarþjónustu flugturnsins. Þetta er svolítið annað en þessi eina míla sem skilur að brautarendann norðan megin og Oddeyrina, sem er einmitt sá spotti þar sem mesta neyðarástandið ríkir, í atviki eins og ég reifaði hér í síðustu viku.

Og Húsavík! Já þeir eru til í alvörunni, sem halda því fram að réttast sé að leggja niður Akureyrarflugvöll og láta allt flug til Akureyrar fara þess í stað um Húsavíkurflugvöll! Hér er um að ræða þriggja kortera akstursleið (um göngin) í góðum skilyrðum og burt séð frá öllu öðru nefni ég í þessu sambandi sjúkraflugsþjónustuna sem hefur bækistöð á Akureyri. Langfjölmennasta upptökusvæði hennar er einmitt Akureyri. Það þýðir að þeir sem halda þessu fram ætlast til að þau hundruð útkalla sem koma árlega frá Sjúkrahúsinu á Akureyri fari fyrst þessa 75 km landleið (um göngin) áður en komið er að flugvellinum. Venjulega stendur baráttan til þess að stytta að jafnaði allan flutningstíma sjúkra og slasaðra, ekki lengja. Og þó því sé haldið fram að aðstæður séu eitthvað betri í Aðaldalnum heldur en í „skurðinum“ er það ekki nema að nokkru leyti rétt. Það eru engar kjöraðstæður þar þó vissulega sé þar víðara milli „veggja“ en í Eyjafirðinum. Enda gerist það reglulega að áætlunarvélar til Húsavíkur þurfa að lenda vegna veðurs á Akureyri. Húsavík er nefnilega opnari fyrir úthafsveðri eins og þokubökkum, lágri skýjahæð og lélegu skyggni, heldur en Eyjafjarðarbotn. Eins og ég gat um hér að ofan, er búið að mæta þeim þröngu aðstæðum sem hér eru með góðum blindflugsbúnaði, þannig að Eyjafjörður þarf síst að vera eftirbátur Aðaldals varðandi flugöryggi.

Þá er vert að geta þess að reglur um aðflugslágmörk og hindranafleti taka reglulega breytingum, annars vegar vegna sífellt aukinnar afkastagetu flugvéla, sem leiðir til aukinnar klifurgetu í brott- og fráhvarfsflugi, jafnvel þrátt fyrir hreyfilbilun, sem aftur kallar á lægri aðflugslágmörk, og hins vegar vegna aukinna krafna um bætt öryggi, sem vænta má að muni lækka hindranafleti flugferla umhverfis flugvelli. Það eru því herfileg mistök sem eru í uppsiglingu, þegar stefnt er að því að reisa háreist hús í stefnu flugbrautar hér á Oddeyrinni og sem munu vísast leiða til árekstra þessara hagsmuna í framtíðinni. Því er vert að spyrja: þegar að því kemur að þessir hagsmunir rekast á, húsin og reglur um flugferlalágmörk, eru bæjaryfirvöld tilbúin að taka íbúðir efri hæðanna eignarnámi til að rífa ofan af þessum húsum?

Það kom fram á opnum fundi í Hofi sem haldinn var til kynningar á þessum áformum, að þessi nýting lóðanna á Eyrinni, sem háhýsin bjóða upp á, væri forsenda þess að verktakanum litist á að byggja þarna yfirleitt. Þetta hafði eitthvað með jarðveginn að gera og þ.a.l. væntanlega djúpa húsgrunna. Það er því afar sérstakt að horfa yfir Oddeyrina í þessu ljósi og virða fyrir sér alla byggðina sem þar er fyrir! Það lítur ekki út fyrir að þetta hafi haldið aftur af húsbyggjendum á svæðinu til þessa.

Loks vil ég beina því til allra, sem að óbreyttu gætu hugsað sér að flytja í efri hæðir þessara háhýsa, verði bygging þeirra að veruleika, að engir bæjarbúar á Akureyri yrðu eins útsettir fyrir hávaðamengun vegna flugumferðar og þeir sem þar munu búa. Hljóðsvið flugvélanna er nefnilega mest eftir langás þeirra, þ.e.a.s. bæði framundan þeim og í kjölfari þeirra, og það í hæðarsviði þeirra hverju sinni. Ég ætla því að vona að þá fari ekki fyrir flugvellinum okkar eins og þeim í Vatnsmýrinni, að þá verði til hávær sérhagsmunahópur (þó lítill sé) gegn tilvist hans.

-Höfundur er flugstjóri.


Athugasemdir

Nýjast