Skammarleg framkoma við eldri borgara

Hjörleifur Hallgríms.
Hjörleifur Hallgríms.

Félag eldri borgara á Akureyri, EBAK, er með félagsmiðstöð í Bugðusíðu 1 húsnæði, sem Akureyrarbær á. Nú er svo komið að húsnæðið er orðið of lítið og heftir starfsemina mjög mikið. Sem dæmi var haldin árshátíð fyrir skömmu og í þessu nær 1700 manna félagi var ekki hægt að koma fyrir nema um 100 manns, sem segir sína sögu.

Hjá EBAK er til nefnd, sem kosin var til að kanna með stækkun á húsnæðinu, sem er mjög auðvelt og kostar lítið en myndi þýða að hægt
væri að koma fyrir 150-200 manns í sæti til viðbótar og væri það byrjunin. Nefndin mun hafa farið á fund einhvers snillingsins hjá Akureyrarbæ, sem er Kristinn J. Reimarsson, sviðsstjóri samfélagsmála, og án þess að kynna sér aðstæður kvað hann upp úr með það „að ekki verður hægt að verða við beiðni ykkar“. Það skal líka tekið fram að EBAK á sér þann draum að byggt verði við og stækkað núverandi húsnæði til suðurs og væri jafnvel til með að létta undir peningalega með því að lána fé til uppbyggingarinnar, því eitthvað er til í sjóði þar sem safnast hefur hjá miklu sparsömu ráðdeildarfólki sem eldri borgarar eru.

Það er óþarfi af Akureyrarbæ að ná í aðkomupésa úr öðrum byggðalögum til að kveða upp sleggjudóma yfir eldri borgurum á Akureyri. Guðfinna Ólafsdóttir, formaður Félags eldri borgara á Selfossi, sem ég átti samtal við, sagði mér að þegar of lítið húsnæði háði þeim hefði bæjarstjórn Selfoss komið til skjalanna mjög myndarlega og boðið húsnæði fyrir 200-300 manns og telur þeirra félag þó ekki nema 700 -800 félaga.

En vonir vöknuðu í brjóstum forystumanna EBAK er frú Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri mætti í Bugðusíðuna og var leidd þar um sali og kynnti sér ófremdarástand húsnæðisins til starfsseminnar, sem þar fer fram í miklum þrengslum. Því er von um betri tíð þar sem frú Ásthildur á í hlut og er búin að kynna sér ástandið. Ekki get ég látið hjá líða í þessu sambandi að geta þess að enn sitja aðili eða aðilar í bæjarstjórn sem eru má segja ábyrgir fyrir hundruð milljóna króna framúreyðslu við Listasafnið og engin látin sæta ábyrgð svo vitað sé og enn er ekki allt búið. Bara allt rekið
með bullandi tapi.

Eldri borgarar í bænum, sem margir hafa tekið þátt í af myndarskap að byggja upp þennan ágæta bæ og gera hann að því sem hann er í dag, eiga betra skilið. En fljótt gleymist máltækið: BÚUM ÖLDRUÐUM ÁHYGGJULAUST ÆVIKVÖLD.

-Hjörleifur Hallgríms eldri borgari, fæddur og uppalinn á Akureyri. 


Athugasemdir

Nýjast