Sett fram í tilefni á sölu eignar Akureyrarbæjar

Arnar  Guðmundsson skrifar
Arnar Guðmundsson skrifar

Góðan dag

Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar

 Það hefur stundum farið fram umræða í bænum um hvernig standa eigi að sölu og ráðstöfun á eignum bæjarins og er það vel, slíku ferli á að vera hægt að treysta og það hafið yfir gagnrýni, það á að skila ákveðnu markmiði, t.d. hámörkun virðis þeirra eigna sem um ræðir eða hvað það nú er og það á að ræða fyrir opnum tjöldum en ekki afgreiða bak við öskutunnur!

 Eignir settar í einkasölu hjá útvöldum

 Á heimasíðunum mbl.is og fasteignir.is er fasteignin Strandgata 17, fasteign í eigu Akureyrarbæjar auglýst til sölu hjá einni fasteignasölu.Í framhaldi af því óska ég skýringa á því hvernig staðið var að vali á söluaðila og hver er stefna Akureyrarbæjar til framtíðar varðandi sölu þeirra eigna sem selja á.  Við óskum einnig eftir að fá upplýsingar um hverjir tóku þessa ákvörðun, hvernig ákvörðun um sölu á fasteign sem er sameign okkar allra, bæjarbúa var tekin.  

Var hún tekin eftir umræður í bæjarstjórn?

Slíkar ákvarðanir um sölu og ráðstöfun eigna bæjarins verða að þola dagsljósið, vera gegnsæjar og hafnar yfir gagnrýni, þessi er það ekki, langt því frá. Hún ber hins vegar glögglega þess merki að vera tekin á bak við öskutunnur eða í reykfylltum bakherbergjum eins og stundum virðist vera því miður, til skaða fyrir bæjarsjóð og bæjarbúa.  

Hvers vegna ákveður Akureyrarbær að ráðstafa sameiginlegum eigum bæjarbúa með þessu hætti? 

Hér vildi ég gjarnan heyra rökstuðning bæjarstjórnar.

 Tillögur að betra fyrirkomulagi:

 Hentugra hefði verið, að ekki sé talað um að betur sé tryggt gegnsæi og trúverðugleiki bæjarins og starfsmanna við svona ákvarðanir að eignir hans fari í almenna sölu, þ.e. að allar fasteignasölur bæjarins fái tækifæri til að taka eignirnar til sölumeðferðar gegn sanngjarnri þóknun sem ákveðin er í samningi sem bæjaryfirvöld geri við þessa aðila, þannig fæst samkeppni milli þeirra um að selja eignirnar sem ætti að leiða til hærra verðs fyrir eiganda, Akureyrarbæ, en þegar einum aðila er falið að selja, ekki veitir af m.v. umræður um fjárhagsstöðu og fyrirhugaðan hundruða milljóna eða milljarða hallarekstur bæjarins á næstu árum!Þetta fyrirkomulag var viðhaft við sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs hins sáluga fyrir nokkrum árum og gafst vel.

 Traust og virðing fyrir bæjaryfirvöldum

 Mönnum er tíðrætt um virðingu fyrir stjórnmálamönnum þessa dagana og sitt sýnist hverjum en virðing er nokkuð sem menn vinna sér inn með störfum sínum, hún dettur ekki af himnum ofan.  Núverandi fyrirkomulag þessara mála hjá Akureyrarbæ er bæjarstjórn ekki til sóma og er í besta falli til þess fallið að ala á og vekja tortryggni um heilindi þeirra sem að þessu koma og sitja uppi með ákvörðunina um þetta sölufyrirkomulag.  Fræg dæmi um slíkt öskutunnupot eru sala eigna úr eignasafni Seðlabanka og úr eignasafni ÍLS.

 Argaþras fyrir dómstólum

 Mikið hefur mætt á Akureyrarbæ vegna dómsmála af ýmsu tagi sem upp hafa komið vegna þess að einstaklingar og fyrirtæki hafa þurft að sækja sinn rétt gagnvart bænum, virðist af lestri frétta og dóma að fjöldi unninna mála sé afar lítill en kostnaður stjarnfræðilegur sem greiddur/tekinn er úr sameiginlegum sjóði okkar bæjarbúa.

Er ekki komið nóg og yfirmáta mikið lagt á starfsmenn bæjarins og bæjarfulltrúa að ekki sé talað um pyngju bæjarins (okkar allra).?

 

Bestu kveðjur

Arnar Guðmundsson

Lögg. Fasteigna- og skipasali

460-5151/7735100

 


Athugasemdir

Nýjast