Ráðdeild í fjármálum – Stöndum undir sterkri þjónustu við fjölskyldur og velferðarmál

Aldey Unnar Traustadóttir.
Aldey Unnar Traustadóttir.

Aldey Unnar Traustadóttir skrifar

Nýlega var samþykktur í sveitarstjórn ársreikningur fyrir árið 2021. Lítilsháttar hagnaður varð af rekstri sveitarfélagsins á A og B hluta eftir taprekstur á árinu 2020 þegar Covid áhrifa gætti sem mest. Hið jákvæða varðandi árið 2021 er að atvinnulífið varð mun sterkara á ýmsum sviðum í fyrra heldur en búist var við líkt og sást til dæmis í ferðaþjónustu í sumarblíðunni í Þingeyjarsýslum. Eins komst kísilver PCC á Bakka af stað á nýjan leik. Þetta olli því að tekjur voru sterkari en gert var ráð fyrir.

Skuldahlutfall er um 77% í árslok 2021 sem er ágætlega viðunandi í samanburði við mörg önnur sveitarfélög. Tekjur Norðurþings hafa aukist mikið á síðustu árum í tengslum við uppbyggingu á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Heildar skuldir Norðurþings námu 7,3 milljörðum sem er lítilsháttar hækkun frá fyrra ári. Á eignahliðinni var handbært fé óvenjulega mikið í lok árs 2021 eða 927 milljónir króna sem er jákvætt.

Fjárfrek verkefni framundan

Þessi skuldastaða Norðurþings er samt sem áður býsna há fyrir tiltölulega lítið sveitarfélag sem búið er að skuldbinda sig fyrirfram í mörg verkefni á komandi árum. Þar vegur þungt nýtt hjúkrunarheimili en einnig er búið að samþykkja nýjan slökkviliðsbíl. Þar við bætast framkvæmdir við golfskála, frístundahúsnæðis barna og ýmislegt annað. Einnig liggur fyrir að talsvert viðhald er framundan hjá Norðurþingi, til dæmis á skólabyggingum. Eins má búast við því að ýmsar aðrar fjárfestingarbeiðnir í sveitarfélaginu muni koma fram á næstu árum en þá gildir að missa ekki tökin og sýna aga. Norðurþing er víðfemt sveitarfélag sem er með fjárfreka innviði sem þarf að reka og viðhalda. Sveitarfélagið rekur hafnir á þremur ólíkum stöðum, nokkur íþróttamannvirki, sundlaugar og skóla. Allt kostar þetta mikla fjármuni og því mikilvægt að reka ábyrga stefnu í fjármálum.

Stöðumat í upphafi næsta kjörtímabils

Til þess að geta staðið undir sterkri þjónustu við fjölskyldur og velferðarmál þarf þétt utanumhald fjármálanna. V-listinn telur skynsamlegt að mörkuð sé sú stefna að Norðurþing fari varlega í fjármálum á komandi árum og ráðdeild verði í fyrirrúmi. Í ljósi þess að fjárfrek verkefni eru framundan er nauðsynlegt að sveitarfélagið fari með sameiginlega fjármuni samfélagsins af einstakri ábyrgð og tryggi að þeir þjóni íbúum þess eins og þeim er best ætlað að gera.

Öflugt atvinnulíf er grunnurinn

Við hjá V-listanum viljum standa með fyrirtækjunum á svæðinu og vinna að því að nýjum grænum verkefnum á iðngarðinum á Bakka fjölgi enda eru innviðir þar sterkir eftir mikla uppbyggingu síðustu ára. Varðandi ferðaþjónustu þá höfum við fulla trú á því að hún muni blómstra nú þegar heimurinn er að opnast í lok faraldurs. Nýlegur Dettifossvegur, fjölbreytileg ferðaþjónustufyrirtæki og allar náttúruperlurnar í sveitarfélaginu munu verða segull fyrir ferðafólk á komandi árum. Eins er mikilvægt að hlúa að nýsköpunarmálum í sveitarfélaginu því þá erum við að styrkja okkur til framtíðar. Landbúnaður er og verður grunnatvinnugrein í sveitarfélaginu og spennandi hlutir eru að gerast við uppbyggingu á fiskeldi á landi í norðursýslunni. Öflugt atvinnulíf er mikilvægt til að tryggja góð og aðlaðandi búsetuskilyrði fyrir fólk og fjölskyldur í sveitarfélaginu öllu.

Aldey Unnar Traustadóttir, hjúkrunarfræðingur og forseti sveitarstjórnar Norðurþings, höfundur skipar 1. sæti V-listans í Norðurþingi.


Athugasemdir

Nýjast