Opið bréf til formanns skipulagsráðs, Þórhalls Jónssonar

Hildur Friðriksdóttir skrifar


 

Hildur Friðriksdóttir

Samkvæmt bókun skipulagsráðs frá 24. febrúar síðastliðnum er nú búið að fela skipulagsfulltrúa að halda áfram vinnu við breytingu á gildandi aðalskipulagi til samræmis við fyrirhugaðar framkvæmdir SS Byggis við Tónatröð. Margar áleitnar spurningar hafa vaknað í tengslum við afgreiðsluferlið sem ég tel mikilvægt að fá svör við áður en haldið er af stað í þá vegferð að kollvarpa forsendum og markmiðum aðalskipulags til að koma til móts við óskir verktakans. Þeim spurningum er hér með beint til formanns skipulagsráðs, Þórhalls Jónssonar og vænti ég þess að fá við þeim efnisleg svör.

  1. Í reglum Akureyrarbæjar um lóðaúthlutanir kemur fram sú meginregla að auglýsa skuli allar lóðir. Lóðirnar við Tónatröð eru skilgreindar í deiliskipulagi sem einbýlishúsalóðir og höfðu fram að úthlutun eingöngu verið auglýstar undir þeim formerkjum. Þegar tekin er ákvörðun um að bjóða völdum verktaka lóðirnar undir öðrum skilmálum hefði þér, sem formanni skipulagsráðs, átt að vera það ljóst að slík ráðstöfun er ígildi úthlutunar án auglýsingar. Á hvaða forsendum var ákveðið að fara þessa leið við úthlutunina, þ.e. að hringja í ákveðna verktaka og bjóða þeim lóðirnar? Og telur þú að slíkt verklag samræmist reglum Akureyrarbæjar um lóðaúthlutanir?
  2. Í lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni Akureyrarbæjar í mars á síðasta ári kemur fram að haft hafi verið samband við fleiri verktaka en SS Byggi til að kynna lóðirnar. Fjöldinn virðist þó eitthvað vera á reiki. Á einum stað er því lýst þannig að formaður skipulagsráðs hafi kynnt málefni Tónatraðar fyrir þremur byggingaverktökum en á öðrum stað er talað um að haft hafi verið samband við a.m.k. þrjá verktaka. Við hvaða verktaka var haft samband? Og hvernig fór valið á þessum verktökum fram?
  3. Ekki kemur fram í umræddu lögfræðiáliti undir hvaða formerkjum lóðirnar voru kynntar fyrir völdum verktökum. Voru lagðar einhverjar línur varðandi það hvað mætti byggja á svæðinu eða var verktökum veitt fullt frelsi til þess að leggja fram skipulagstillögur óháð gildandi deiliskipulagi? Og hafðir þú umboð frá skipulagsráði til þess að setja þig í samband við valda verktaka í þeim tilgangi að bjóða þeim lóðirnar á breyttum forsendum eða lá frumkvæðið alfarið hjá þér sjálfum?
  4. Árið 2018 var verktakanum Hoffell ehf.  í þrígang neitað um að byggja mun hófstilltari fjölbýlishús á lóðunum við Tónatröð. Var umsókn Hoffells hafnað á þeim forsendum að bygging fjölbýlishúsa á þessum lóðum gengi gegn gildandi deiliskipulagi og samræmdist ekki útliti og yfirbragði nærliggjandi byggðar. Í umræðum bæjarstjórnar um málefni Tónatraðar þann 14. desember sl. vísar þú í lóðaskort sem ástæðu þess að umsókn SS Byggis fékk aðra meðferð en umsókn Hoffells ehf. Má þá skilja orð þín sem svo að lóðaskortur réttlæti að horft sé framhjá markmiðum og forsendum aðalskipulags? Og ef svo, mega bæjarbúar þá eiga von á því að í hvert skipti sem upp kemur vísir að lóðaskorti í bænum fái verktakar, í ljósi aðstæðna, fullt frelsi til þess að byggja það sem þeim sýnist, hvar sem þeim sýnist, óháð aðalskipulagi?
  5. Ein meginrök þeirra sem hafa talað fyrir tillögum SS Byggis eru þau hversu hagkvæmt það sé að nýta þá innviði sem þegar eru til staðar. Miðað við umsögn Norðurorku um fyrirhugaðar framkvæmdir liggur það hins vegar ljóst fyrir að innviðir á svæðinu munu ekki bera það byggingarmagn sem nú er á teikniborðinu og er þá verið að vísa í fráveitu, hitaveitu, rafveitu og mögulega vatnsveitu. Hefur farið fram kostnaðargreining á uppbyggingu innviða á svæðinu? Hefur verið lagt mat á hvort þétting byggðar á umræddu svæði sé hagkvæm fyrir bæinn m.t.t. fyrirsjáanlegra uppbygginga á innviðum? 
  6. Sjónarmið um verndun eldri byggðar og hverfisvernd hafa um áratugaskeið verið lögð til grundvallar í skipulagsáætlunum Akureyrarbæjar. Þau sjónarmið koma t.a.m. berlega fram í byggingalistastefnu bæjarins og gildandi aðalskipulagi þar sem lögð er rík áhersla á að styðja og styrkja byggðamynstur og yfirbragð eldri hverfa og að þess skuli gætt að breytingar á byggingum og nýbyggingar falli vel inn í þá götumynd/bæjarmynd sem fyrir er. Telur þú, að byggingaráform SS Byggis á svæðinu samrýmist þeim markmiðum?
  7. Spítalavegur stendur í miklum halla og er 12 tonna ásþunga takmörkun í götunni. Gatan er aukinheldur mjó og á það einnig við um efsta hluta hennar þar sem er tvístefna og er bílum gjarnan lagt í götunni þar sem skortur er á bílastæðum við þau hús sem þar standa. Akandi vegfarendur sem daglega fara um Spítalaveg þekkja því mætavel hversu vandasamt það er að mæta þar bílum. Það vekur því furðu að umferðargreining Mannvits, þar sem lagt er mat á áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á umferðarflæði, skuli að engu leyti taka tillit til byggingatæknilegra atriða s.s. breidd götunnar og veghalla. Þess í stað byggir matið eingöngu á umferðartalningu sem fór fram í janúar þegar illfært var um götuna vegna snjóþyngsla. Verður þessi umferðartalning látin duga eða stendur til að fara í frekari greiningu þar sem einnig verður tekið tillit til sérstakra aðstæðna í götunni áður en endanlegt mat er lagt á hvort gatan beri aukinn umferðarþunga?
  8. Alls bárust 113 ábendingar við skipulagslýsinguna við Tónatröð og Spítalaveg og hafa sjaldan eða aldrei borist jafnmargar ábendingar. Voru þessar ábendingar almennings lagðar fram til kynningar hjá skipulagsráði? Hafa þessar ábendingar eitthvert vægi eða skiptir rödd bæjarbúa kannski engu máli í þessu samhengi?

Í lokin vil ég hvetja skipulagsráð og bæjarfulltrúa til þess að staldra við og vinda ofan af þessari ákvörðun á meðan enn er svigrúm til þess. Að sama skapi vil ég minna á mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar standi vörð um vandaða og góða stjórnsýsluhætti. Völdum ekki óafturkræfum skaða á bæjarmyndinni með vanhugsuðum og óvönduðum vinnubrögðum!

Hildur Friðriksdóttir

íbúi við Spítalaveg

 


Athugasemdir

Nýjast