Óhemjugangur

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Mér finnst núvitund mjög nauðsynleg. Mér hugnast vel að hægt sé að þjálfa upp þann eiginleika að veita augnablikinu fulla athygli og öllu því sem ég skynja, tilfinningum mínum og umhverfi án þess að dæma það eða taka afstöðu til þess. Þetta þýðir ekki að maður eigi ekki að hafa skoðun á hlutunum eða láta vaða yfir sig heldur þýðir einfaldlega það að maður nær smávegis andrými á milli upplifana og athafna. Svona eins og þegar manni var sagt að telja upp að tíu áður en maður svaraði í reiði.

Og núvitund þýðir líka það að manni gefst þetta litla augnablik til að staldra aðeins við til að velja orrustur. Hvaða málefni eru raunverulega þess virði að láta þau fá athygli og tíma? Þetta krefst samt æfinga. Ég man alls ekki alltaf eftir því að æfa mig og verandi áköf og tilfinningarík í eðli mínu þá bregst mér mjög oft bogalistin við núvitundina. Ég er t.d. nýbúin að berjast í Örlygsstaðabardaga í sýndarveruleika á Sauðárkróki og það ógnaði mér smávegis hversu reiðubúðin ég var að rífa upp grjót og láta vaða í menn sem ég þekkti ekki neitt og kasta í þá spjótum.- og var alveg með hjartsláttinn á eftir. En til þess er sýndarveruleiki. Hitt er verra að ég er slæm af umferðarpirringi og til þessa dags hafa núvitundaræfingar engu skilað þar. Ekki þannig að ég elti aðra ökumenn uppi til að skammast,- eða sjaldnast!

En ég rífst af alefli úr mínum bíl þótt enginn heyri og svo á ég til að blikka ljósum og horfa á viðkomandi með afar mikilli vanþóknun. Daginn sem ég hef náð því að telja upp að tíu og sleppa því að pirrast í umferðinni þá hefur núvitundin virkilega skilað árangri. Þangað til bið ég meðborgara mína, sem fá vanþóknunaraugnráðið, innilegrar afsökunar. Það eru ósjálfráð viðbrögð og óhemjugangur.


Athugasemdir

Nýjast