Mútur-gamalt fyrirbæri í mannlegu samfélagi

Tryggvi Gíslason.
Tryggvi Gíslason.

Vegna umræðu síðustu vikur um mútugreiðslur má nefna, að orðið „múta“ eða „mútur“ hefur fylgt þessari þjóð langan aldur og kemur víða fyrir í fornu máli, s.s. í heilagra manna sögum, í Stjórn, gamalli þýðingu á upphafi Biblíunnar, og í sögu Alexanders mikla sem uppi var 300 árum fyrir Krists burð. Þá kemur orðið einnig fyrir í kvæðinu „Heimsómi“, er Skáld Sveinn orti á 15. öld, þar sem segir:

 

Hvert skal lýðurinn lúta?
Lögin kann enginn fá,
nema baugum býti til.
Tekst inn tollur og múta,
taka þeir klausu þá
sem hinum er helst í vil.
Vesöl og snauð er veröld af þessu klandri,
völdin efla flokkadrátt í landi,
harkamálin hyljast mold og sandi,
hamingjan bannar að þetta óhóf standi.

Í erindinu spyr Skáld Sveinn, hvaða lögum almenningur eigi að lúta, af því að enginn fái réttláta meðferð mála nema greiða valdsmönnum mútur, til þess að valdsmenn noti þau ákvæði laga, sem eru mútugjafanum til hagsældar. En af þessum svikum verður veröldin fátækari og svikin auka flokkadrátt í landinu, og svikin – harkamálin – gleymast, fara í gröfina með þeim sem sviknir eru, svo og með þeim sem svíkja. Að lokum er í erindinu borin fram sú ósk, að hamingjan komi í veg fyrir þetta óréttlæti – þetta óhóf. Mútur eru því ekki nýtt fyrirbæri í mannlegu samfélagi, eins og sumir virðast halda.

Þá er fróðlegt að hafa í huga, að gyðja þagnarinnar í hinni forngrísku goðatrú heitir Muta, en það orð merkir „hin mállausa“.  Gyðjan var þekkt fyrir fegurð, en einnig fyrir málæði og gat ekki þagað yfir leyndarmálum. Sagði hún frá framhjáhaldi Júpíters, sem fyrir vikið skar tunguna úr henni.  Var Merkúr, guð verslunar og ferðalaga, falið að fara með hina fögru gyðju niður í undirheima, en hann hreifst af fegurð hennar og hafði kynmök við hana á leið þeirra niður og barnaði hana.

Íslenska nafnorðið múta merkir í nútímamáli „peningagreiðsla til þess að hafa áhrif á gang mála“. Í dönsku og norsku er nú notað orðið bestikkelse, en í sænsku muta eða mutor, sem á rætur að rekja til grísku gyðjunnar. Í þýsku er notað orðið Schmiergelder, í ensku orðið bribery, sem upphaflega var notað um „theft, robbery, swindling, pilfering“, komið af franska orðinu briberie, sem og var þar notað um það þegar embættismenn tóku fé fyrir sviksamlegt athæfi. Allt er þetta því af sömu rót runnið og mútur alþekktar um allan heim – um aldir alda.


Athugasemdir

Nýjast