Mun ný sveitarstjórn Norðurþings þora ?

Ágústa Ágústsdóttir
Ágústa Ágústsdóttir

Ágústa Ágústsdóttir skrifar

Eitt af því mikilvægasta sem sitjandi sveitastjórn hefur yfir að búa er eyrað og röddin. Ef hvorugu þeirra er beitt rétt hefur sveitarstjórn mistekist hlutverk sitt.  Mikilvægt er eftir þau ár sem nú hafa liðið eftir sameiningu og stofnun Norðurþings að raddir íbúa fari að sameinast og hlusta á hvort annað.

Sitjandi sveitarstjórn þarf að hafa hugrekki til að standa upp og nota rödd sína á opinberum vettvangi þegar kemur að því að verja hagsmuni og búsetuöryggi íbúa gagnvart æðri stjórnvöldum.

Síhækkandi skattar á jarðefnaeldsneyti hér á landi sem matreiddir eru sem grænir hvatar hafa eingöngu virkað sem refsiskattar á hinn almenna íbúa á landsbyggðinni og skert lífsgæði þeirra þegar kemur að krónum milli handanna um hver mánaðarmót.  Stríðið í Úkraínu hefur bætt enn um betur með gríðarlegum hækkunum og í stað þess að lækka skatta, lýsir forsætisráðherra því yfir að þetta muni virka sem enn meiri innspýting í orkuskiptin. Meiri veruleikafirringu er ekki hægt að ímynda sér og ávallt situr ráðandi sveitarstjórn Norðurþings þegjandi, í stað þess að hlusta á rödd íbúa og brýna raustina gagnvart þeirri staðreynd að hinn almenni íbúi hefur ekki efni á að kaupa sér margra milljóna króna rafmagnsbíl úr kassanum. Ekki frekar en að bóndinn sem ræktar matvæli ofan í þjóðina hefur val um rafmagnsdráttarvél, hvað þá verktakar og fyrirtæki sem reka hópferðabíla, vörubifreiðar o.s.frv.

Öll aðflutningsgjöld út á land stórhækka ásamt allri nauðsynjavöru og matvælum. Búsetuöryggi og matvælaöryggi er ógnað. Og þögnin ríkir innan veggja stjórnsýslunnar.

M-Listi Samfélagsins er nýr listi sem teflir út breiðari samstöðulista en nokkur annar listi hér í Norðurþingi. Mikil áhersla er lögð á að íbúar úr öllu sveitarfélaginu, sitji í breiðri samstöðu frá efstu sætum niður í þau neðstu til þess einmitt að skapa dýrmætan samtalsgrunn á milli svæða. Við höfum ekki efni á, í fámennu og víðfeðmu sveitarfélagi að standa eilíft í innbyrðis deilum með setningarnar “við” og “þið” fremst á vörunum. Við höfum ekki efni á gömlum hrepparígum. Við erum eðlilega ekki alltaf sammála, en hreppamörkin er óþarfur baggi á þeim vettvangi. Við erum samfélag.

M-Listinn fer ekki um sveitarfélagið með loforðaflaumum og klisjukenndum skreytingum eins og vaninn er því miður allt of oft hjá frambjóðendum.

En við ætlum okkur þó að standa vörð um fjármál sveitarfélagsins sem lífsnauðsynlegt er að taka föstum tökum.

Við ætlum okkur að liðka og greiða fyrir leiðum sem hvetja til uppbyggingar og laða að fjölbreyttari atvinnutækifæri.

Við ætlum okkur að standa vörð um jafnræði allra íbúa.

Listinn okkar samanstendur af öflugu fólki af öllu svæðinu sem tilbúið er að gefa sér tíma til að hlusta á það sem fólk hefur að segja og gefa því rödd.

Fyrst og fremst vona ég að íbúar kjósi með sinni eigin sannfæringu. En ég vona svo sannarlega að sem flestir kjósi að gefa okkur stóra rödd þann 14. maí næstkomandi og þannig tækifæri til að beita henni.

Höfundur er Ágústa Ágústsdóttir íbúi við Öxarfjörð

og skipar 4. sæti á M-Lista Samfélagsins í Norðurþingi

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast