Miðbærinn á Akureyri – einstöku tækifæri hent út um gluggann?

Jón Þorvaldur Heiðarsson
Jón Þorvaldur Heiðarsson

Nýtt metnaðarfullt miðbæjarskipulag á Akureyri var samþykkt í maí 2014.  Í skipulaginu átti að nýta það óvenjulega og einstaka tækifæri að í miðbænum eru stór svæði óbyggð.  Nýta átti plássið sem best, búa til austur vestur ása (götur), mjókka Glerárgötuna úr fjórum akreinum í venjulega tveggja akreina götu (1+1) og auka þannig plássið fyrir nýjar byggingar og tengja miðbæinn við sjóinn, Pollinn.  Ég og fleiri vorum spennt, nú væri tækifærið til að gera stórkostlega hluti á Akureyri, byggja upp einn fallegasta miðbæ á norðurslóðum sem drægi fólk og fyrirtæki að Norðurlandi. 

Nú, sjö árum síðar er afar lítið búið að gerast í miðbæ Akureyrar nema sunnan Kaupvangsstrætis. Enn er beðið eftir uppbyggingu. Fljótlega var farið að tala skipulagið niður af vissum hópum sem höfðu mestar áhyggjur af því að ekki væri hægt að bruna á bíl jafn hratt í gegnum miðbæjarsvæðið þegar akreinarnar væru orðnar tvær.  Það er lítil umferð á Akureyri í alþjólegum samanburði, ein akgrein í hvora átt á stutta kaflanum milli miðbæjar og sjávar annar umferðinni þar fyllilega.  A.m.k. í öll þau mörghundruð skipti sem ég hef ekið þessa leið. 

Þau rök voru notuð að svo dýrt væri að mjókka Glerárgötuna vegna lagna undir henni að ekki væri neitt vit að fara eftir skipulaginu.  Þegar farið var að reikna kom þó í ljós að gatnagerðargjöld og fasteignaskattur af auknu byggingarmagni borga færsluna í fyllingu tímans og vel það.  Þannig að ekki er það kostnaðurinn sem aftrar.

Nú er búið að teikna upp nýtt miðbæajarskipulag þar sem akreinarnar fjórar eiga að ráða miðbæ Akureyrar næstu nokkur hundruð árin, þeirra er valdið, dýrð sé því heilaga malbiki.  Þær lóðir sem þá blasa við eru ekki nema svipur hjá sjón. Allt of mikil þrengsli og afar erfitt að skapa austur vestur ása, tengslin við Pollinn lítil eins og áður.

Það er afar sorglegt að á tímum þar sem öll vestræn samfélög eru að reyna að auka miðbæjarvirkni og mannlíf í bæjum og borgum með því að láta bílinn ekki skera svæði í sundur að óþörfu og taka óþarfa pláss að þá skulum við ákveða að miðbæjarsvæðið á Akureyir skuli nýtt undir fjögurra akreina veg með umferðareyju á milli sem takmörkuð not eru fyrir.

Verði þetta reyndin verður einstöku tækifæri fyrir Akureyri varpað út um gluggann.  Af hverju, má spyrja.  Nú er verið að byggja upp miðbæ á Selfossi sem verður flottur, kannski stórkostlegur. Fyrir nokkrum dögum kynnti Reykjavíkurborg uppbyggingu 20 þúsund manna hverfis á Höfðanum.  Á meðan þessi metnaður er annarsstaðar ætlum við ekki einu sinni að hafa kjark til að nýta verðmætasta byggingarland á Akureyri undir byggingar sem styrkja miðbæinn og þar með bæinn allan í leiðinni.  Fallegur sterkari miðbær styrkir allt í kringum sig. Meðal annars Eyrina sem verður dýrasta hverfið á Akureyri í framtíðinni.

Ég tel að með því að láta akreinarnar fjórar ráða þá fari verðmætt tækifæri forgörðum.  Það verði mistök sem marka muni Akureyri í meira en 100 ár.

-Jón Þorvaldur Heiðarsson


Athugasemdir

Nýjast