Menn með byssur

Svavar Jónsson skrifar

 

Bróðir pabba bjó í Keflavík og hjá honum sá ég í fyrsta skipti sjónvarp. Reyndist erfitt að ná fimm ára Akureyrardreng frá viðtækinu þar sem hann fylgdist í ofvæni með langdreginni keppni í golfi þótt hann hefði ekki hugmynd um út á hvað íþróttin gengi. 

Rúmum áratug síðar var sami drengstauli aftur kominn í heimsókn til Keflavíkur. Bróðursonur pabba, nýkominn með bílpróf, bauð mér og yngri systrum mínum í bíltúr upp á Keflavíkurflugvöll þar sem varnarliðið hafði aðsetur.  

Ekki höfðum við lengið ekið um hermannabyggðir þegar vopnuð herlögregla stoppaði okkur og vildi fá að vita hvaða erindi við ættum þarna upp á Miðnesheiðina. 

Systur mínar í aftursætinu urðu skelfingu lostnar og sú yngri brast í sáran grát með miklum ekkasogum. Ástæðan fyrir ofsahræðslu þeirra systra var sú, að þær höfðu aldrei áður séð mann með byssu. 

Mörgum finnst allt ómögulegt á Íslandi og þar er vissulega ótal margt sem betur mætti fara. Þótt mörgum finnist það eflaust einfeldningslegt er ég nú samt þeirrar trúar, að hvergi sé betra að búa en þar sem börn alast upp í friði og öryggi og sjá ekki menn með byssur. Mættu sem flest heimsins börn njóta þeirra gæða. 

Góður Guð verndi alla fyrir ógnum stríðs og haturs. 


Athugasemdir

Nýjast