„Lofið mér að klára áður en þið klárið allt frá mér.”

Þuríður Bjarnadóttir á mynd frá árinu 1897 Það var Bretinn W.C. Collingwood sem tók myndina
Þuríður Bjarnadóttir á mynd frá árinu 1897 Það var Bretinn W.C. Collingwood sem tók myndina

Ingólfur Sverrisson skrifar

Eyrarpúki

Flest eigum við góðar minningar um ömmur okkar og afa.  Sjálfur var ég svo heppinn að kynnast langömmu minni í föðurætt, Þuríði Bjarnadóttur, sem ég er sannfærður um að hafi verið með merkilegri konum. Meira að segja veitti hinn frægi Breti W.C. Collingwood henni athygli árið 1897 og tók mynd af henni sem enn lifir með þjóðinni og fylgir þessum þönkum. Myndin sú arna hefur víða birst og var eitt sinn lögð fram í samræmdum prófum og nemendum falið að skrifa hugleiðingar um konuna.  Þarna hafði Úllí amma – eins og við kölluðum hana jafnan – þegar eignast tvö börn með langafa, Gunnlaugi Sigurðssyni, og bætti síðan við sex. En örlögin voru miskunnarlaus þegar fjórar dætur þeirra létust á sex árum úr berklum á aldrinum fimmtán til tuttugu og sex ára. Allar voru þær gjörvilegar og miklar efniskonur. Svona gríðarlegt áfall hefði brotið niður margar mæðurnar en Úllí amma bar harm sinn í hljóði og nýtti mannkosti sína og góða lund til að vinna sig og sína út úr sorginni og horfa fram á veginn.  

Hún bjó lengst af á Svalbarðseyri en síðustu árin á Ólafsfirði og Akureyri hjá dóttur og tengdasyni. Þar lífgaði hún upp á tilveruna sem náði nýjum hæðum þegar hún bakaði sínar frægu pönnukökur. Var þá gjarnan safnast saman í kringum hana og hver reyndi að ná í eina og eina en þá sagði hún brosandi „Lofið mér að klára áður en þið klárið allt frá mér.” Svo settist hún á stól, krækti í pilsið niður við ökkla, vafði það upp í nára og seildist undir sokkafaldinn og dró upp neftópaksglas sem þar var í vasaklút innanlærs; tók síðan hraustlega í nefið með nautnasvip.  Allt eins eðlilegt og verið gat enda tilgerð ekki til í hennar orðabók.

Þegar nýir tímar runnu upp og unga fólkið fór að tileinka sér ýmsa siði sem eldri kynslóðin var lítið hrifin af, sló Úllí amma sér á lær og sagði stundarhátt: „Ja, svei mér þá - ef ég væri ung núna myndi ég áreiðanlega bæði drekka og reykja.” Þannig var hún jákvæð gagnvart nýjum siðum og straumum enda þótt hún gerði sér mæta vel grein fyrir að þeim fylgdu ókostir sem síðar komu betur í ljós að sumir gætu verið lífshættulegir. En Úllí amma lagði meiri áherslu á hið jákvæða og uppbyggilega í lífinu enda þótt hún þyrfti ekkert að spyrja aðra að því hvað það væri að mæta mótlæti; hún hafði fengið stærri skammt af því en flestir aðrir en ekki brotnað. 

Og þarna er hún á 125 ára gamalli mynd Collingwoods með dularfulla ásjónu rétt eins og bros Monu Lísu. Hvað býr að baki þessum svip rösklega tvítugrar konu á Stóru Borg í Húnavatnssýslu? Hún átti eftir að eignast sex börn í viðbót við þau tvö sem þegar voru fædd. Ákveðnin sem þarna birtist í svipnum skýrir að einhverju leyti hvernig hún gat staðist þau ægilegu áföll að missa fjögur  þeirra í blóma lífsins. Þá sýndi hún fádæma styrk og æðruleysi sem staðfesti að þar fór sannkölluð afburðakona.

Ingólfur Sverrisson

Smellið

 


Athugasemdir

Nýjast