Lítill lesskilningur-önnur fyrirspurn til Ásthildar

Einar Brynjólfsson.
Einar Brynjólfsson.

Heil og sæl Ásthildur.

Fyrir nokkru barst mér mjög ítarlegt svar þitt við fjórum spurningum mínum varðandi framlög Akureyrarbæjar til rekstrar Öldrunarheimila Akureyrar og þakka ég snöfurmannleg viðbrögð þín. Ég verð þó að viðurkenna að svo virðist sem orðafjöldinn hafi skyggnt á innihaldið. Mér reyndist glíman við orðin erfið og lesskilningur minn reyndist minni en æskilegt hefði verið, og kalla ég þó ekki allt ömmu mína þegar kemur að lestri á textum af ýmsum toga.

Staðan er sem sagt þessi: þú virðist fara undan í flæmingi, útlistar í löngu máli allt mögulegt sem vissulega snýr að rekstri ÖA en tengist spurningum mínum lítið. Þú talar um misskilning varðandi hið lögboðna hlutverk ríkisins að reka öldrunarheimili, notar að hluta til aðrar tölur en þær sem ég tók upp úr skýrslum ÖA, vitnar í reglugerðir, fjallar um skilgreiningar á hugtökunum húsaleiga og fasteignagjald, gerir grein fyrir fjölda starfsmanna, stærð húsnæðis, skiptingu byggingakostnaðar og eignarhalds og svo mætti lengi telja. Ekki bætti svo úr skák að uppsetning textans hefur eitthvað misfarist, því honum var öllum komið fyrir í einni efnisgrein.

Staðan er sem sagt þessi: Ég næ ekki að sía út úr orðagnóttinni svar við fyrstu spurningu minni, nema að hluta til. Spurningin hljómaði svona:

  1. Sat „eitthvað eftir“ hjá bæjarsjóði af þeim 953 milljónum sem bærinn greiddi sjálfum sér (aðallega í húsaleigu), eða fóru allar þessar milljónir í útlagðan kostnað?

Í meðfylgjandi töflu, sem byggir á ársskýrslum ÖA, kom fram hvernig þessi upphæð er samansett.

Ár

Framlag Akureyrarbæjar

Húsaleiga

Lausafjárleiga

Þjónusta, t.d. launavinnsla

2019

352.000.000

-225.000.000

-7.000.000

-13.000.000

2018

209.000.000

-221.000.000

-6.000.000

-12.500.000

2017

341.000.000

-216.000.000

-6.000.000

-12.000.000

2016

443.000.000

-215.000.000

-9.600.000

-10.000.000*

Samtals

1.345.000.000

-877.000.000

-28.600.000

-47.500.000

*Áætluð upphæð

Þér tókst ágætlega að gera grein fyrir kostnaði vegna lausafjárleigu og þjónustu en takmarkaður lesskilningur minn gerir mér ókleift að skilja hvað varð um þær 877 milljónir sem eru undir húsaleiguliðnum. Því leyfi ég mér breyta spurningunni lítillega: Fóru þessar 877 milljónir sannanlega í beinan rekstrar-, viðhalds- og umsýslukostnað á húsnæði öldrunarheimilanna? Ef ekki, hvert fóru þær þá? Er þetta kannski bara meinleg villa í ársskýrslum ÖA?

Með von um skjót viðbrögð, líkt og síðast.

-Einar A. Brynjólfsson,höfundur er ennþá frekar ringlaður útsvarsgreiðandi, og oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi við Alþingiskosningarnar sem fram fara 25. september næstkomandi.


Athugasemdir

Nýjast