Kvöldstund í Freyvangi

Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit frumsýndi fyrir rúmri viku, leikverkið Smán eftir Sigríði Láru…
Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit frumsýndi fyrir rúmri viku, leikverkið Smán eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Sindra Swan. Myndir/aðsendar.

Svavar Alfreð Jónsson skrifar: 


Blákaldur veruleikinn nægir fólki ekki. Þess vegna býr það sér til allskonar hliðarveruleika. Hliðarveruleikarnir eru eins og nafnið gefur til kynna eitthvað sem er til við hliðina á veruleikanum. Þar getur verið um upplifanir að ræða; fagurfræðilegar, trúarlegar, erótískar eða húmorískar. Hliðarveruleikarnir geta líka átt sér stað inni á ákveðnum rýmum sem eru hannaðir með það í huga að þeir geti orðið til: kirkjur og aðrir helgidómar, listasöfn, leikhús og barir, eru dæmi um híbýli hliðarveruleikanna. 

Smán heitir nýtt íslenskt leikverk eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur. Í leikskrá kemur fram að það hafi verið lengi í samningu. Verkið vann handritasamkeppni sem Freyvangsleikhúsið efndi til vorið 2019 og eftir að faraldurinn hafði tafið sviðsetningu þess er það nú loksins sýnilegt á fjölunum góðu frammi í firði. 

Smán gerist að mestu á bar á Norðurlandi – líklega höfuðstað þess – og fer allt fram í hliðarveruleika barsins þar sem önnur lögmál gilda en úti í bláköldum raunveruleikanum. Samskipti fólks á börum eru með öðrum hætti en á öðrum stöðum. Þar gilda sérstök lögmál og þar getur ýmislegt komið fram sem er að öðrum kosti hulið. Barir eru oft afhjúpandi staðir. Þær verkanir nýtir höfundur leikritsins. Við fáum að vita ýmislegt um persónurnar sem við hefðum sennilega ekki fengið að vita ef Smán hefði gerst úti í veruleikanum. 

Smán

Ekki var alltaf gott að átta sig á hvert nákvæmlega höfundur er að fara með því. Er Smán gleðileikur, harmsaga eða tragíkómedía? Stundum vissi maður ekki hvort ætti að hlæja – en þannig er það reyndar oft á börunum. Þar getur gleðskapurinn orðið hörmulegur og treginn hlægilegur. 

Leikstjóranum, Sindra Swan, gömlum liðsmanni Freyvangsleikhússins, tekst vel upp. Framgangur verksins er góður og leikararnir standa sig með prýði. Umgjörðin öll er til fyrirmyndar og metnaðarfull. Freyvangsleikhúsið og önnur áhugaleikfélög eru dýrmætir og mikilvægir þættir í menningarlífinu. Ég hef lengi dáðst að leikstarfinu í Freyvangi og átt gefandi stundir í hliðarveruleikanum sem áhugafólk býr þar til handa áhorfendum með ómældri vinnu sinni og elju. Það framtak að setja upp nýtt íslenskt leikrit útheimtir áræði sem mér finnst lofsamlegt.  

Ég óska Freyvangsleikhúsinu til hamingju með sýninguna.

 


Nýjast