Karlar á tunglinu

Hrafnhildur Karlsdóttir.
Hrafnhildur Karlsdóttir.

Ef hægt er að senda einn mann til tunglsins, afhverju ekki að senda þá alla?  Þetta er spurning sem ég sá einhversstaðar, gerði að minni og spurði upphátt. Eldheitur femínisti, rétt skriðin upp í stúdentshúfuna og taldi mig bara hafa nokkuð mikið til míns máls.  Sagði fleirum en heyra vildu og uppskar mjög misjöfn viðbrögð sem kannski komu konu ekki eins mikið á óvart eins og hún lét uppi.  Eftir þónokkrar umræður og einhvern hávaða á stöku stað varð til kenning um þessa skemmtilegu setningu. 

Kenningin sýndi fram á að þessi setning gæti alveg gengið upp og aðgerðin myndi ekki bíta í skottið á sér.  Hægt væri að sent alla karla til tunglsins og samfélög myndu halda áfram að virka eins og áður og í drauma útfærslunni enn betur en áður.  Engin störf á jörðunni sem konur gætu ekki unnið, engin menntun eða sérþekking til sem konur gætu ekki tileiknað sér og í rauninni ekkert sem konur gætu ekki gert nema framleitt sæði til að geta getið börn.  Getan, möguleikinn og svo aftur viljinn og óskin og væntingarnar voru mikið ræddar en kenningin gekk upp í megin atriðum. Og þar kom að þessu með bitið og skottið.  Kenning unga rótæka femínistans gekk út á það að sveinbörn yrðu ekki send til karlanna á tunglinu fyrr en þeir næðu kynþroskaaldri og áður en það gerðist myndu þeir gefa þá miklu gjöf sem sæði þeirra væri, til að viðhalda mannkyninu. Þá færu þeir í þá miklu paradís sem karlasamfélagið á mánanum bláa væri þar sem sundrung var ekki einu sinni orð í orðabókinni  og Evurnar og eplin myndu engu spilla. Feðraveldið myndi blómstað í sinni fallegustu mynd. 

En hvað á þessi kómíska saga skylt við femínisma og réttlátt samfélag?  Svo sem ekki neitt nema að hrista upp í viðteknum venjum og senda hugsanir eftir öðrum brautum en áður og fá okkur til að horfa á hlutina út frá öðru sjónarhorni. Afhverju í ósköpunum er ég þá að pára þetta hér.  Það er einföld og mikilvæg ástæða fyrir því og hún er venjur og vani. Það sem verður - þetta svokallaða norm,  að flestra mati, það sem við tölum um sem eðlilegt samfélag.

Í daglegu lífi erum við ekki alltaf meðvituð um hvað við erum að lesa, hvernig við tölum og hvernig venjurnar verða til.  Smátt og smátt síast inn hlutir, myndir og setningar sem eru bara ósköp eðlilegar.  Hvað er athugavert við frétt í blaði um að einhver fallegur nafntogaður karl frumsýni kærustuna sína. Þetta var ein mest lesna frétt dagsins á vefmiðlinum og enginn gerði athugasemd við að kona væri frumsýnd. Þegar gamall klámblaðakóngur deyr þá að sjálfsögðu birtist frétt um það í flestum miðlum. Konan hér upp á klakanum mótmælt fréttinni við fréttastofur og hún er úthrópuð. En svo þegar birtast fréttir um eða af konum í fjölmiðlum eru þær oftar en ekki nafnlausar í fyrirsögnum, kannski heppnar og tengdar einhverjum karli í lífi þeirra og oftar en ekki fannst engin mynd af þeim til að birta, enda allar vænar konur hlédrægar og ekkert fyrir athygli.

Getur verið að þetta eigi að vera normið okkar? „Í alvöru“ veit ég að heyrist hjá einhverjum lesendum núna.  „Það má bara ekki neitt lengur.  Við erum búin að ná jafnrétti og þetta hlýtur að vera komið gott af þessari umræðu“. Þessa orðræðu heyri ég reglulega.  Það er hins vegar bjargföst skoðun mín er að svo sé ekki og það verði aldrei nóg af femínískri umræðu.  Hana eigi að tengja inni í alla umræðu og skúmaskot og skoða sem flesta hluti úr frá réttlæti til handa öllum sem er femínismi í hnotskurn. Við megum ekki taka réttlátu samfélagi sem sjálfsögðum hlut eða miða okkur við einhverja sem eru verr staddir en við í þessu annars góða samfélagi sem við byggjum.  Okkar skylda er að gera betur.

Eitt af því er að auka gagnrýna hugsun og árvekni. Taka ekki öllu sem við sjáum, lesum og upplifum sem sjálfsögðu og eðlilegu ástandi.  Annað sem við ættu að hafa í huga  er að forðast einsleitan félagsskap, skoðanir. Ólík sýn og skoðanaskipti sem ekki er innræting eða rifrildi hafa í sér kraft sem gaman er að upplifa.
Samfélagið fór mildum höndum um unga rótæka femínistann fyrir mörgum árum og hjálpaði til við að móta og auka skilning á sjónarmiðum og venjum og er sem betur fer enn að.

Förum því mildum höndum um unga sem aldna varðmenn ferðaveldisins, að hvaða kyni sem þeir eru. Gangrýnin hugsun, opin hugur, umburðarlyndi og örlítið af skopskyni gagnvart sjálfum sér og öðrum er gömul uppskrift sem gefur af sér réttlátt samfélag, jafnvægi og pláss fyrir alla.

Ég skora á Eyþór Þorbergsson lögmann að gefa lesendum innsýn í hugleiðingar sínar í  næsta blaði.

-Hrafnhildur Karlsdóttir


Athugasemdir

Nýjast