Íslenska veðráttan...

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

...er svolítið eins og íslenska bjartsýnin. Óbilandi og óútreiknanleg. Ætli það sé ekki hluti af seiglunni við að búa á þessu litla skeri í Norður-Atlantshafi, að trúa því og minna sig á að eitthvað gott taki við handan við hornið. Þannig trúum við í hvert skipti að Ísland vinni Eurovision, HM og EM (og jú, Miss World og Sterkasta mann heims um árið líka).

Við íslendingar erum upp til hópa hinir mestu veðurfræðingar, sem hæglega má rökstyðja með fjölda orða og orðasambanda í íslenskri tungu sem tengjast veðrinu, samanborið við aðrar þjóðir og menningu. Við eigum jú yfir 100 orð og orðskýringar bara yfir vindafar. Ætli það segi ekki líka töluvert um veðurfarið síðustu aldirnar.

Það mætti því vel færa rök fyrir því að á Íslandi ríki ákveðin veðurmenning, sérdeild innan okkar menningar sem snýr eingöngu að veðrinu. Og þá hefur það þekkst gegnum tíðina að bæði menn og dýr fái fyrirboða um veðrið og finni á eigin skinni hvað í vændum er, en lesa má um fólk sem varð sérstaklega slæmt af gigt áður en brast á með ofsaveðri, fuglar breyta hegðun og flugstíl sínum og önnur dýr ókyrrast.

Veðrið hefur líka verið notað með góðum árangri sem ísbrjótur þegar hefja á samræður á förnum vegi, á biðstofum eða hvar annars staðar þar sem ókunnugir eða rétt málkunnugir hittast. „Hann fer að bresta á - Hann hlýtur nú að fara að lægja - Hann á víst að snúa sér seinni partinn o.s.frv.“ Þetta séríslenska veðurtal er þó eitthvað sem aðrar þjóðir þekkja ekki, enda veðurfar oftast mun jafnara annars staðar og óþarfi að ræða það oft á dag.

En hvað um það. Þegar þetta er ritað er hann sólríkur en kaldur, og spáir hlýnandi. Vorið er komið. Að minnsta kosti þangað til annað kemur í ljós. 

Huld Hafliðadóttir

 


Athugasemdir

Nýjast