Íslandsþari til Húsavíkur

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings.

Katrín Sigurjónsdóttir skrifar

Í nokkra mánuði hafa málefni Íslandsþara verið til umfjöllunar í stjórnkerfi Norðurþings eftir að fyrirtækið sóttist eftir lóð á hafnarsvæði H2 á Norðurgarði Húsavíkurhafnar undir fyrirhugaða starfsemi sína.

Sú fyrirhugaða starfsemi felst í slætti á stórþara úti fyrir ströndum norður- og norðausturlands, flutning hráefnis til löndunar og vinnslu í lífmassaver á Húsavík, vinnslu á verðmætum afurðum úr hráefninu og útflutningi á framleiðsluafurðum til sköpunar gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið.

Nýting stórþara

Við nýtingu stórþara og framleiðslu úr honum fást verðmæt efni s.s. íblöndunarefni fyrir matvælaiðnað, heilsuvörur og lyfjaframleiðslu. Núna standa yfir rannsóknir á áhrifum af nýtingu þarans úti fyrir Íslands ströndum samkvæmt rannsóknar- og nýtingarleyfi Íslandsþara ehf. Þessar rannsóknir eru unnar af Hafró í samstarfi við Íslandsþara sem er frumkvöðullinn að verkefninu á landsvísu. Einnig er fyrirtækið með tilraunavinnslu á Hjalteyri þar sem m.a. er verið að þróa framleiðsluferla, rannsaka nýtingu þarans, styrkleika framleiðsluefna o.fl. Þetta er nokkurra ára ferli og eðlilegt að fyrirhuguð starfsemi taki breytingum á þróunartíma enda um nýsköpunarverkefni að ræða.

Íslandsþari sækist eftir lóð á hafnarsvæðinu sem kallar á skipulagsbreytingar. Sveitarstjórn samþykkti að breytingar á deiliskipulagi færu í fullt skipulagsferli til að gefa öllum kost á að koma með umsagnir og athugasemdir vegna lóðarinnar. Um er að ræða nýja starfsemi í atvinnulífi þjóðar og eðlilegt að spurningar kvikni um fyrirkomulag, staðsetningu, áhættuþætti og margt fleira og mikilvægt að vanda öll skref í ferlinu. Alls bárust 41 umsögn á auglýsingatíma skipulagstillögunnar og er nú verið að vinna úr þeim gögnum. Hægt er að nálgast umsagnirnar á vef Norðurþings í fundargerðum þar sem breytingartillagan hefur verið til umfjöllunar hjá stjórn hafnasjóðs og skipulags- og framkvæmdaráði. Skipulagsferli tekur tíma og á öllum stigum hafa gögn verið birt með fundargerðum um leið og þau eru tekin til formlegrar umfjöllunar í stjórnkerfinu og íbúum þannig haldið upplýstum um gang mála. Þetta er hinn eðlilegi stjórnsýslulegi farvegur á máli sem þessu.

Ávinningur fyrir Norðurþing

Ef áætlanir ganga eftir, og hægt verður að nýta auðlindina stórþara á sjálfbæran hátt, mun starfsemi fyrirtækisins skapa verðmæt þekkingarstörf á Íslandi, eftirsótta vöru og miklar útflutningstekjur. Það er því mikill fengur fyrir Norðurþing að fyrirtækið sækist eftir að setja starfsemi sína hér niður og að Húsavík hýsi höfuðstöðvar Íslandsþara. Í því felast mörg tækifæri s.s. 40-50 ný fjölbreytt störf sem m.a. kalla á hámenntað starfsfólk, umsvif í hafnastarfsemi m.a. í bryggjugjöldum, aflagjöldum og vörugjöldum, uppbyggingu húsnæðis, fleiri íbúa og skattgreiðendur sem standa undir þeirri þjónustu og velferð sem sveitarfélagið rekur frá degi til dags og ári til árs um komandi framtíð.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Norðurþingi


Athugasemdir

Nýjast