Hvar er ræktunarmetnaðurinn sem ríkti á Akureyri?

Nú þykir mér minn gamli og kæri heimabær vera farinn að dragast aftur úr.

Þegar ég ólst þar upp, um og eftir miðja síðustu öld, var almennt viðurkennt að hann væri til fyrirmyndar hvað varðaði gróður, ræktun og umhverfi. Bæði bæjaryfirvöld og einstaklingar lögðu sig fram í þessum efnum og útkoman var fallegur og gróðursæll bær. Aðrir bæir tóku sér þetta allt til fyrirmyndar og ekki síst höfuðborgin.

Þegar ég renndi inn í bæinn minn kæra með mínu fólki fyrir nokkrum dögum blasti við mikið og voldugt hringtorg – fyrir ofan Bónus búðina í Þorpinu. Í stað þess að rækta þar tré og blóm og gera aðkomuna aðlaðandi fyrir þá sem aka inn í bæinn blasir þar við lítið annað en auðn og órækt. Í miðju hringtorginu liggja dauð blóm frá síðasta sumri og yfir þá hörmung vex svo heljarins njóli sem horfir yfir til þeirra sem aka þarna um með þeirri fyrirlitningu sem njólar einir geta framkallað eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Hringtorg

 

Þegar ég svo renndi í gær inn í hverfið mitt í Grafarvogi blasti við samskonar hringtorg en öllu ræktarlegra (sjá mynd). Slík gróðurtorg eru raunar allmörg bara í þessu eina úthverfi Reykjavíkur og eru til marks um metnað og vilja til að gera umhverfið hlýlegra og notalegra.

Hringtorg

 

Þegar við bætist að áttatíu ára gamalt og bogið vatnsrör er enn notað sem handrið í Skátagilinu; þar sem njólinn hefur líka tekið völdin; þá hef ég nokkrar áhyggjur af mínum kæra heimabæ.

Hvar er nú ræktunarmetnaðurinn sem ríkti á Akureyri þegar ég ólst þar upp?

-Ingólfur Sverrisson


Nýjast