Húsavík, My Hometown

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Ef einhvern tímann hefur verið gaman að vera frá Húsavík, þá er það sannarlega núna. Húsavík, My Hometown. Á innan við ári höfum við eignast hlutdeild í svolítið kjánalegri gamanmynd um "húsvíkinginn" Lars og draum hans um að sigra Eurovision söngvakeppnina. Lagið Húsavík var svo tilnefnt til Óskarsverðlauna sem besta frumsamda lagið með tilheyrandi fjaðrafoki og upptökum við Húsavíkurhöfn og nú síðast birtist stigakynnir okkar Íslendinga í Eurovision á skjám Evrópubúa með Húsavíkurkirkju í baksýn. 

Huld Hafliða

Þetta er vafalaust mun stærra en margir gera sér grein fyrir og erfitt að spá fyrir um hvað þetta mun í raun þýða fyrir Húsavík. Kannski við leyfum bara sögumbókum framtíðarinnar að gera því skil. En eitt er víst. Þetta hefur nú þegar skilað sér í ómældri gleði á annars niðurdrepandi covid tímum, virkjað samheldni og gefið af sér náunakærleik í sinni bestu og skýrustu mynd. Allir hafa lagst á árarnar ef á hefur þurft að halda og meira að segja svo vel og skemmtilega að heimatilbúna Óskarsherferðin, með hinum (nú) víðfræga Óskari Óskarssyni, rataði í sjónvarpsútsendingar víða um heim, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. 

Og hvað svo? Höfum við eitthvað lært af þessu? Jú, kannski helst það að stundum þurfum við eitthvað utanaðkomandi til að minna okkur á kraftinn okkar, kjarkinn og þorið. Stundum þurfum við einfaldlega að horfa á The Story of Fire Saga til að minna okkur á það er allt í lagi að gera grín að okkur sjálfum og það er sannaralega allt í lagi að sameinast um eitthvað skemmtilegt. Við þurfum ekki alltaf að þrasa um pólitík, eða finna eitthvað að okkur sjálfum eða öðrum. Við þurfum ekki alltaf að afsaka okkur, taka minna pláss eða segjast  bara „vera að norðan“. Því það verður líklega enginn tími betri en einmitt núna til að vera frá Húsavík, My Hometown.


Nýjast