Gautaborg við erum á leiðinni!!!

Stuðningsmenn Íslands hafa heldur betur slegið í gegn á HM í Svíþjóð.   Mynd Jon  Forberg
Stuðningsmenn Íslands hafa heldur betur slegið í gegn á HM í Svíþjóð. Mynd Jon Forberg

Halldór Jóhann Sigfússon fyrrum leikmaður KA núverandi handboltaþjálfari hjá danska úrvalsdeildarliðinu TTH Holstebro sem í sumar tekur við liði Nordsjælland skrifar um HM í handbolta fyrir lesendur Vikublaðsins.

Dóri

 Enn og aftur förum við uppúr riðlinum okkar á stórmóti í handbolta.  Ekki gekk allt eins og á var kosið að þessu sinni en útlitið hefur oft verið svartara en núna.  Annað sætið í riðlinum er veruleiki eftir mjög svo sveiflukennda frammistöðu.  Okkar bíður heimaþjóðin, Svíþjóð, Brasilía og Grænhöfðaeyjar í milliriðlum. Við erum að mörgu leyti heppin með lið í milliriðlinum en það sem gerir þetta erfitt er að við verðum sennilega að vinna alla þrjá leikina til að eigamöguleika á sæti í 8 liða úrslitum.  Ef við vinnum bæði Brasilíu og Grænhöfðaeyjar en töpum fyrir Svíþjóð og Portúgal gerir slíkt hið sama þá fara Portúgalar í 8 liða úrslit vegna þess að þeir unnu riðilinn okkar.

 Ef við lítum aðeins á liðin sem við mætum í milliriðlinum þá er klárt að Svíþjóð, núverandi Evrópumeistarar, eru langsterkasti mótherjinn.

Svíar hafa frábæru liði á að skipa og þar fremstur, nýlega kosinn besti leikmaður í heimi, Gottfridsson.

Oft var talað um Svía grýluna og okkur hreinlega tókst ekki að vinna Svía á stórmóti eða umspili fyrir stórmót fyrr en 2007, að mig minnir, í umspilsleikjum fyrir EM 2008.  Að sjálfsögðu var minn maður Alfreð Gíslason þá landsliðsþjálfari Íslands.

Svíar hafa alltaf átt frábæra markverði sem oftar en ekki hafa átt stórleiki á móti Íslandi og þar er engin breyting núna með Palicka á milli stanganna. Svíar hafa ekki lengi átt svona gott landslið í handbolta og eru með tvo frábæra leikmenn í hverri stöðu og ætla sér heimsmeistara titilinn á heimavelli í Stokkhólmi 29 janúar.

 Brasilía er þjóð sem hefur verið í mikilli framför síðastliðin ár og unnu okkur td. Á HM í þýskalandi 2019 í leik um 11 sætið.

Þeir hafa að skipa stórum þungum línumönnum og hafa verið með spænska þjálfara í gegnum tíðina sem hefur haft mikil áhrif á hvernig þeir vilja spila í bæði vörn og sókn.  Ég hef ekki séð mikið til þeirra  mótinu í ár en á von á erfiðum leik enda Brassarnir mjög líkamlega sterkir og það mun taka mjög á íslenska liðið að klára það verkefni en við klárum það enda betri í handbolta.

 Grænhöfðaeyjar veit ég nánast ekkert um og á því erfitt með að tjá mig mikið um þá.  Ég veit þó að hluti leikmannanna eða flestir spila í portúgölsku deildinni sem hefur vaxið mjög á síðastliðnum árum.

Grænhöfðaeyjar unnu sinn fyrsta sigur í sögu HM, nú í ár, þegar þeir unnu Úrúgvæ 33-25. En svona fyrirfram eigum við að gera kröfu um að vinna Grænhöfðaeyjar.

 Eins og þetta lítur út núna þá tel ég okkar einu leið í 8 liða úrslit vera að vinna alla þrjá leikina í milliriðlinum. Miði er möguleiki sagði einu sinni góður maður við mig og ég tel okkur geta unnið Svía.  Einu má ekki gleyma að við eigum yfirleitt einn algjörlega stórkostlegan leik á hverju stórmóti og sá leikur á eftir að koma.

 Það hefur verið frábært að sjá íslensku stuðningsmennina í Kristianstad á leikjum Íslands og það er tekið eftir því hér í Danmörku hversu frábæra stuðningsmenn við eigum sem leggja á sig langt ferðalag til að styðja liðið sitt.

 Með trú og vilja framkvæmast frábærir hlutir og því bið ég þjóðina áfram að standa á bak við liðið og fylgja því alla leið, sama hver útkoman verður.

 Áfram Ísland!

 Halldór Jóhann Sigfússon

 

 

 

  

 

 


Athugasemdir

Nýjast