Leikni til lífs: Félags- og tilfinningafærni fyrir ungt fólk á grunni díalektískrar atferlismeðferðar

Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir.
Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir.

Geðrækt og forvarnir hafa orðið sífellt veigameiri þáttur í skólastarfi á Íslandi og sýna kannanir sem hafa verið gerðar að það er brýnt að markviss kennsla og þjálfun fari fram í skólum landsins á þessum sviðum. Í Oddeyrarskóla hefur síðustu þrjú ár verið að kennt námsefni sem ber vinnuheitið Leikni til lífs: Félags- og tilfinningafærni fyrir ungt fólk á grunni díalektískrar atferlismeðferðar (DAM). DAM er er íslenskt heiti á námsefninu DBT Skills Training for Emotional Problem Solving for Adolescents sem er bandarískt að uppruna. Oddeyrarskóli hefur kennt þetta námsefni með góðum árangri undanfarin ár undir stjórn Þuríðar Lilju Rósenbergsdóttur, náms- og starfsráðgjafa og Sigríðar J. Þórisdóttur, M.A. í sálfræði og kennslufræðum. Niðurstöður árangursmats sem gert hefur verið er jákvætt og lofar góðu fyrir nemendur.  

DAM

Námsefnið byggist á grunnþáttum díalektískrar atferlismeðferðar (DAM) sem er öflugt meðferðarúrræði við ýmsum alvarlegum geðrænum vanda. DAM hefur einnig nýlega verið útfært sem heildstætt, forvarnamiðað námsefni fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólaaldri þannig að það henti öllum nemendum (Mazza o.fl., 2016). Frumrannsóknir á DAM í formi geðræktar, fræðslu- og forvarnastarfs í skólum benda til þess að það sé árangursríkt og geti m.a. dregið úr áhættuhegðun meðal unglinga (Ricard, Lerma, og Heard, 2013; Zapolski og Smith, 2016). Námsefnið felur í sér þjálfun í a) núvitund, b) streituþoli, c) tilfinningastjórn og d) árangursríkum samskiptum.

Námsefnið hefur verið kennt í 1. og 8.bekk í Oddeyrarskóla og verið leitt áfram af kennurum skólans, Maríu Aðalsteinsdóttur, Hrafnhildi Guðjónsdóttur, Ragnheiði Ástu Einarsdóttur ásamt Þuríði Lilju. Helsti styrktaraðili verkefnisins er Sigríður J. Þórisdóttir, einnig hefur Sprotasjóður stutt verkefnið dyggilega, sjá má skýrslu um það hér og hér, einnig hafa  Norðurorka og Lýðheilsusjóður lagt verkefninu lið.  Kennarar skólans  hafa sótt námskeið hér heima  og í Los Angeles hjá Patriciu Gieselman, hjónabands- og fjölskylduráðgjafa sem er jafnframt sérfræðingur í DAM . Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur einnig stutt við verkefnið og vinnur nú að þýðingu námsefnisins. Þýðingin er styrkt af Sigríði J. Þórisdóttur sem jafnframt hefur styrkt og staðið fyrir þeim námskeiðum sem DAM teymið hefur sótt bæði hér á Íslandi og í Los Angeles. Sigríður J. Þórisdóttir gerði einnig námsefnið Ótrúleg eru ævintýrin og afhenti á sínum tíma öllum grunnskólum landsins að gjöf. Námsefnið er byggt á hugmyndafræði um heildstætt nám sem  hefur verið notað í 1. bekk og samþætt við færniþætti DAM.

Stefna stjórnvalda

Heilbrigðisráðherra skipaði 1. nóvember 2018  starfshóp  til að vinna að geðheilbrigðisstefnu stjórnvalda til ársins 2020. Starfshópurinn gerði  m.a.  könnun meðal starfsfólks í leik-, grunn- og framhaldsskólum um allt land til að fá sem skýrasta mynd af því hvernig geðræktarstarfi í skólum er háttað í dag. Niðurstöður starfshópsins má finna á vef Landlæknis Geðrækt, forvarnir og stuðningur við börn og ungmenni í skólum á Íslandi.  Í niðurstöðum starfshópsins kemur m.a. fram að mikilvægt er að hefjast sem fyrst handa við að innleiða með markvissum hætti kennslu í geðrækt og forvörnum í skólum og snemmtækan stuðning við börn og ungmenni. Einnig kemur fram að mikilvægt sé að mennta kennara og námsráðgjafa og aðra aðila sem koma að þessari vinnu.

Eins og áður hefur komið fram þá benda frumrannsóknir að  DAM í formi geðræktar, fræðslu- og forvarnastarfs í skólum til þess að það sé árangursríkt og geti m.a. dregið úr áhættuhegðun meðal unglinga.  Það hefur verið leitast við að greina og skilgreina líðan barna og ungmenna, safna upplýsingum með ýmsum hætti, skoða hvað gengur vel og hvað má betur gera til að auka vellíðan og bæta geðheilbrigði. Til að ná markmiðum stjórnvalda um aukna velferð og hamingju er afar mikilvægt að á öllum skólastigum fari fram markviss og öflug velferðarkennsla. Það á ekki kannski ekki síst við nú þegar margskonar utanaðkomandi erfiðleikar steðja að sem geta auðveldlega haft neikvæð áhrif á velferð og líðan barna. Meginmarkmiðin eru að veita börnum og unglingum kennslu og ráðgjöf til að taka góðar ákvarðanir fyrir sig sjálf og auka vellíðan þeirra og hamingju.

-Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri DAM

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast