Ég er enginn royalisti

Þessi ferskvatnsfiskur var einn af mínum uppáhalds í Fiskabókinni. Hann heitir Astronotus Ocellatus.
Þessi ferskvatnsfiskur var einn af mínum uppáhalds í Fiskabókinni. Hann heitir Astronotus Ocellatus.

Egill P. Egilsson skrifar

Eipi

Eins og lög gera ráð fyrir eyddi ég 10 árum ævi minnar í grunnskóla. Kennararnir voru flestir ágætir og sumir alveg hreint prýðilegir. Ég velti því stundum fyrir mér hvort þeir minnist mín með skelfingu eða stolti. Hið fyrra þykir mér líklegra enda var ég enginn fyrirmyndarnemandi. Ég man ágætlega eftir þeim flestum en hvað þeir kenndu mér man ég minna eftir. Það var svo margt annað áhugavert að hugsa um en kennslubækurnar.

Hvað ég gerði yfirhöfuð í skólanum man ég sáralítið eftir enda var ég einstaklega sveimhuga og vildi helst vera á iði að fremja einhver asnastrik. Reyndar gat ég alveg lært þegar sá gállin var á mér, en yfirleitt hafði ég áhuga á einhverju öðru. Sérstaklega eftir að svigar og x fóru að birtast í stærðfræðinni og atviksorð í íslenskunni. Þá hvarf ég inn í heim dagdraumanna, já og bókasafnsins.

Gagnlaus fróðleikur 101

Bókasafnið var minn griðarstaður og þar eyddi ég eins mörgum stundum og mér frekast var unnt. Þar las ég t.d. Stóru fiskabók Fjölva spjaldanna á milli og lærði öll latínu heiti S-Amerískra ferskvatnsfiska. Ég man þau mörg hver enn þann dag í dag en á sífellt erfiðar með að koma þessum fróðleik að í almennum samtölum, ég geri það nú samt stundum.

Beint á galeiðuna

Það sem helst stendur uppúr eftir kennslustundir þessarra 10 ára er að í kynfræðslunni var mér kennt að fremsti hlutinn á typpinu mínu héti reðurhöfuð. Það fannst mér áhugavert enda aldrei verið royalisti. Sennilega hefur fátt af þessu gagnast mér sértaklega síðar á ævinni, hvorki latínuheitin né vitneskjan um reðurhöfuðið, ekki frekar en dönskutímarnir. Fróður maður benti mér reyndar á það nýverið að sérhæfðu latínukunnáttuna væri eflaust hægt að nota í neyð, klukkan korter í þrjú á knæpunni. Nú held ég sé kominn tími til að skella mér á galeiðuna.

Umdeild lexía

Þrátt fyrir námsleiðann þótti mér alltaf gaman í skólanum og þótt námsbækurnar hafi ekki skilið mikið eftir sig í mínu tilfelli, þá lærði ég margar góðar lexíur sem ég tók með mér út í lífið strax að loknum 10. bekk.

Sértaklega sátu í mér lokaorð skólastjórans við skólaslitin en hann hvatti okkur til að fara sem víðast og prófa sem flest. Mömmu minni fannst ég reyndar hafa tekið þessu full bókstaflega og var alls ekki hrifin af öllu því sem ég prófaði en það er önnur saga.

Egill P. Egilsson


Athugasemdir

Nýjast