Covid-ferðaárið

Ragnheiður Jakobsdóttir.
Ragnheiður Jakobsdóttir.

Þó svo að allir séu komnir með upp í kok á Covid-umræðu langar að rifja upp Covid ferðaárið og vangaveltur mínar sem framkvæmdastjóra lítillar ferðaskrifstofu norður í landi sem selur farmiða til fyrirtækja og einstaklinga. Fyrir rétt um ári síðan, þann 21. febrúar 2020, steig ég upp í flugvél Transavia á Akureyrarflugvelli á leið til Amsterdam. Það er svo dásamlegt að geta stigið upp í flugvél hér á Akureyri og vera komin út til Evrópu 3 klst síðar.

Það var tilhlökkun í litla hópnum sem ég ferðaðist með að eyða helgi í Amsterdam. Við áttum dásamlega daga þar án þessa nota andlitsgrímur, spritta eftir hverja búðarferð og án þess að forðast margmenni. Ekki óraði okkur fyrir því að ferðafrelsið yrði tekið af okkur innan nokkurra vikna. Uppúr miðjum mars tók allt óvænta stefnu og áskorunin að reka ferðaskrifstofa varð töluverð. Óvissan varð mikil og enginn vissi hvað gera skyldi og hvað væri rétt eða rangt. Hræddir ferðalangar sem staddir voru í miðri ferð, hvort sem um var að ræða viðskipta ferð eða í fríi, hringdu inn vildu komast heim sem fyrst. Aðrir sem áttu bókaðar ferðir vildu hætta við.

Lönd lokuðust, flugferðum var aflýst, viðburðum aflýst og svona mætti lengi telja. Söluskrifstofan snérist upp í andhverfu sína og hvatti viðskiptavini sína að hætta við ferðalög, þeir sem voru erlendis skoruðum við á að halda heima á leið sem fyrst áður en flugsamgöngur myndu leggjast af. Ringulreiðin var mikil og dagarnir erfiðir. Það var svo ekki fyrr en undir lok apríl og flestir búnir að átta sig á stöðunni og línan varð flöt. Reksturinn undirbjó sig í að leggjast dvala og skríða inn í hýðið sitt með það að leiðarljósi að vera tilbúin þegar allt færi á blússandi siglingu með haustinu. Sumarið leið og starfsemi í algjöru lágmarki, við sáum á eftir góðu starfsfólki og litli reksturinn sem var með 6 stöðugildi í apríl var kominn niður í 1,5 stöðugildi í lok september. Enn bíðum við átekta eftir að átökin hefjist og er dvölin í hýðinu orðið mun lengra en nokkurn óraði fyrir. Aðlögunarhæfni miðaldra konu hefur verið alveg með einstökum góð, þrátt fyrir ástandið, enda áttaði ég mig á því að ég fæ engu ráðið um framvindu mála.

Að fara úr því að vera alltaf í fimmta gír niður í þann fyrsta á augabragði var góð prófraun. Lífið í hýðinu er bara nokkuð gott, þó að ég sakni þess að hafa geta ekki hitt vini og ættingja sem skildi og gefið knús. Þá er það ljúft að geta drukkið morgunbollann í ró og næði prjónað nokkrar lykkjur og jafnvel gluggað í sögubók áður en haldið er út i daginn. Til þess að gera daginn extra góðan reima ég mig hlaupaskóna og nýt þess að skokka um fallega bæinn okkar. Það eru lífsgæði. Hvenær hægt verður að stíga upp í flugvél og halda í skemmtiferð erlendis án „skilmála“ um sóttkví og covid tes vitum við ekki.

Það sem við getum gert á meðan við bíðum eftir ferðafrelsinu er að njóta þess sem við höfum í nærumhverfinu okkar og nýta orkuna í að hlúa að okkur sjálfum og nánasta fólkinu okkar. Við verðum fljót úr hýðinu og tilbúin að setja í fimmta gírinn þegar allt fer af stað og vonandi eigum við eftir að geta hoppað upp í flugvél hér á Akureyrarflugvelli og haldið út í heim á þessu ári. Það eru líka lífsgæði.

Ég skora að Hrafnhildi Karlsdóttur að taka við pennanum og skrifa það sem henni liggur á hjarta.

-Ragnheiður Jakobsdóttir


Athugasemdir

Nýjast