Borgin við heimskautsbaug!

Siggi Gunnars skrifar:

Borgin við heimskautsbaug!

Þannig gæti eitt af slagorðum ferðabæklinga framtíðarinnar, þar sem Akureyri er kynnt fyrir væntanlegum ferðamönnum, hljómað.

Ég er einlægur áhugamaður um að Akureyri þróist úr bæ í borg, hvort sem litið er til samfélags- og stjórnsýslulegs hlutverks eða sjálfsmyndar þeirra sem þar búa. Bærinn hefur nefnilega allt sem borg þarf að hafa. Þar má nefna öflugan háskóla, sjúkrahús, alþjóðaflugvöll sem vonandi verður enn betri þegar fram líða stundir, fjölbreytta menningu og tækifæri.

Ég trúi því að það felist enn frekari tækifæri til vaxtar í því að gera bæinn okkar að borg auk þess sem öflug Akureyrarborg gæti haft jákvæð áhrif á landsbyggðina í heild en sérstaklega auðvitað nágrannabyggðirnar. Svo er það kannski bara nauðsynlegt fyrir landið allt að hér séu fleiri en ein borg?

Skipulag næstu ára ætti því að markast af hugmyndum um að byggja upp borg sem leggur áherslu á rólegt, heilbrigt og umhverfisvænt samfélag, því borgum þarf ekki endilega að fylgja ys og læti. Samfélag þar sem almenningssamgöngur innan borgar og utan eru í öndvegi, samfélag sem byggir áfram á þekkingu frá háskólanum en einnig fjölbreyttu atvinnulífi. Fjölbreytileikinn þrífst best í borgum og hann getur svo sannarlega þrifist í Akureyrarborg, borginni við heimskautsbaug!

Rétt er að geta þess að undirritaður er ekki á leið í framboð. Hann er einfaldlega áhugamaður um framgang Akureyrar og alls Norðurlands. 


Athugasemdir

Nýjast