Áskorun til sveitarstjórna Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps

Aðalsteinn Már Þorsteinsson skrifar

Nýlega hófust miklar framkvæmdir við húsnæði Seiglu, Litlulaugaskóla, á Laugum. Framkvæmdir sem einhverjir hafa sjálfsagt látið sig dreyma um lengi, að breyta fyrrum skólahúsinu í sveitarstjórnarskrifstofu. Sá grunur læðist að manni að ráðist sé í framkvæmdirnar núna sökum þess að við stöndum á ákveðnum tímamótum því ýmislegt bendir til þess að ekki hafi verið gefinn nægur tími til undirbúnings. Verkið verður mjög kostnaðarsamt og mun eðlilegra hefði verið að íbúar væru spurðir og ný sveitarstjórn hefði ráðist í svona verk eftir kosningar. Þá má líka spyrja sig af hverju húsnæði á Skútustöðum gat ekki þjónað stjórnsýslu nýs sveitarfélags ef einhver þörf var þá yfir höfðu á nýju eða viðbótar stjórnsýsluhúsi.

En ég ætlaði svo sem ekki að eyða orðum á þetta frekar en það fjölmargt annað sem er að, hef nú sjaldnast fengið mikið annað út úr því en persónuárásir og óvild. Þegar menn fela verk sín í myrkri og blekkingum þá er það yfirleitt vegna þess að þau þola ekki gagnrýni og þeir hinir sömu geta heldur ekki tekið henni. Ég fékk líka í póstkassann í gær þetta ljómandi fína boð á opinn fund um sveitarstjórnarmál og þangað vona ég að sveitungar mínir fjölmenni og samtalið verði gott. Ég bind miklar vonir við sameininguna og að sú opna og heiðarlega umræða um málefni sveitarfélags og vellíðan sveitunga sem mér hefur sýnst einkenna Mývatnssveit síðustu árin nái að smitast hér niður í dalina. Í ljósi ástandins í heiminum vil ég þó fyrst af öllu og af brýnni þörf legga eftirfarandi til:

Ég skora á sveitarstjórnir Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps að stöðva nú þegar framkvæmdir og láta af áformum sínum að breyta fyrrum húsnæði Litlulaugaskóla, sem upphaflega var byggt sem íbúðir og mötuneyti fyrir skóla, í ráðhús. Um leið skora ég á þessa sömu aðila að gera samning við ríkið um móttöku á flóttamönnum og undirbúa húsnæði sem hýst getur þá. Þannig mætti t.d. breyta fyrrum húsnæði Litlulaugaskóla í nokkrar litlar íbúðir sem síðar gætu, þegar núverandi heimsástandi líkur (sem allir vona auðvitað að verði sem fyrst), nýst í ferðaþjónustu. Þegar þar að kemur gæti sveitarfélagið þá hvort heldur sem er selt húsnæðið eða leigt það til aðila sem vill standa í þannig rekstri.

Með kveðju,

Aðalsteinn Már Þorsteinsson


Athugasemdir

Nýjast