Amma þín hvað

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Í greinargerð sem bæjarstjórn Akureyrar hefur lagt fram með breytingartillögum á gildandi skipulagi miðbæjarins er varpað fram nokkrum spurningum og þeim svarað jafnharðan.  Ein spurningin er á þessa leið:  "Af hverju er ekki byggt í samræmi við gildandi deiliskipulag?" Forvitinn um svarið varð ég heldur opinmynntur þegar ég fletti því upp og las eftirfarandi:  "Forsenda uppbyggingar í samræmi við gildandi deiliskipulag er að fyrst verði farið í framkvæmdir við að breyta legu Glerárgötu. Ekki hefur náðst samkomulag um að fara í þær framkvæmdir og þess vegna var ákveðið að skoða hvort finna mætti aðra lausn á málinu til að koma uppbyggingu af stað."  Þetta er auðvitað ekkert svar við spurningunni hvers vegna ekki er byggt í samræmi við gildandi skipulag - einasta greint frá því að ekki hafi náðst samkomulag um að fara í hluta framkvæmdanna. Ekkert fjallað í svarinu við hvern eða hverja náðist ekki samkomulag eða um hvað var deilt; voru það vistfræðilegar, skipulags-, fjárhags- eða fagurfræðilegar ástæður eða ef til vill vegna sérhagsmuna? Ekkert um það að finna í "svarinu" -  ekki neitt.

Það þarf töluverða ósvífni og drýldni til að svara sjálfum sér með þessum hætti út í hött.  Segja aðeins að ekki hafi náðst samkomulag í bæjarstjórn um að færa götuna til um nokkra metra enda þótt full samstaða hafi verið um það í bæjarstjórn árið 2014. Þetta er enn merkilegra fyrir þá sök að engin ósk hefur komið frá bæjarbúum um að hverfa frá gildandi skipulagi að þessu leyti - ekki ein einasta svo vitað sé. 

Þessi dæmalausa framsetning og virðingarleysi við bæjarbúa minnir mig á þegar við strákarnir á Eyrinni í gamla daga vorum að bulla einhverja vitleysu okkar á milli og komust svo stundum í vandræði og vissum ekkert hvað við áttum að segja. Frekar en standa á gati og þegja sögðum við þá gjarnan: "Amma þín hvað." Þar með var bullinu lokið í það sinn. 

Á sama hátt gerir bæjarstjórn enga tilraun til að færa vitræn rök fyrir þeirri afdrífríku breytingu á skipulaginu að byggja Glerárgötuna norðan Kaupvangsstrætis upp með öðrum hætti en gildandi skipulag gerir ráð fyrir.  Bara látið nægja að snúa út úr - jafnvel út úr eigin spurningum sem eitt og sér hlýtur að teljast töluvert afrek! En það gera auðvitað bara snillingar; þeir þurfa ekki að eyða tímanum í að tala við bæjarbúa, sem þeir þiggja umboð sitt frá, heldur láta sér nægja að hjala góðlátlega sín á milli.  Enginn utan Ráðhússins veit í hverju meintur ágreiningur innan bæjarstjórnar felst um ofangreint lykilatriði málsins. Engin rök tilgreind með eða á móti breytingunum og ekkert hver eða hverjir vilja knýja þær fram; aðeins dularfullar véfréttir um ágreining og síðan þrúgandi þögn þegar kemur að efnisatriðum enda enginn bæjarfulltrúi tjáð sig um þau opinberlega frekar en innvígðir frímúrarar um það sem fram fer innan þeirra veggja.  Aðeins  heyrist þetta eitt frá bergmálslausum múrum Ráðhússins: "Ekki hefur náðst samkomulag." Amma þín hvað.

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

 


Athugasemdir

Nýjast