„Aldrei hafði ég séð slíka dýrð, mig svimaði hreinlega – þvílíkt hús, þvílíkur geimur“

Ingólfur Sverrisson skrifar

Eyrarpúki

Bak sláturtíðar á því herrans ári 1950, og ykkar einlægur orðinn fullra sjö ára, ákváðu foreldrar mínir eftir talsverðar umræður sín á milli að fjármagna fyrstu bíóferð mína. Þegar ekki var úr miklu að moða var það stór ákvörðun á okkar heimili að kasta fjármunum í slíkan óþarfa. En Höddi bróðir, sem var þremur árum eldri, hafði lagt til að við bræður færum saman í bíó enda væri hann öllu vanur á bíóslóðum og treysti sér til að leiðbeina mér og tryggja að ég færi mér ekki að voða fyrir æsku sakir. Þarna var teningnum kastað og við bræður lögðum af stað í hátíðraskapi úr Ránargötunni, suður Norðurgötu og að Strandgötu þar sem Pollurinn blasti við spegilsléttur. Sem við stóðum þarna á horninu heyrðust miklar drunur austar á Pollinum. Við nánari athugun kom í ljós að Grumman Goose-flugvél sigldi í áttina að flugplaninu sem var sunnan við Strandgötuna. Þegar vélin nálgaðist jókst hávaðinn frá henni sem náði hámarki þegar hún erfiðaði með ærandi óhljóðum eftir sliskjunni úr sjónum og upp á planið. Þegar þangað kom þagnaði hún skyndilega og farþegar gengu út úr þessu hávaðaskrímsli. Mér til furðu virtist allt í stakasta lagi og fólkið komst óskaddað frá þessari raun.

Við héldum áfram göngunni og þegar við fórum framhjá Halldóri söðlasmið blasti Nýja bíó við.  Þangað fikruðum við okkur eins og í leiðslu enda mikilla tíðinda að vænta. Eftir að Höddi hafði keypt miða og Stjáni í bíó rifið af þeim gengum við í bíósalinn og settumst á fremsta bekk. Aldrei hafði ég séð slíka dýrð, mig svimaði hreinlega – þvílíkt hús, þvílíkur geimur. Höddi hnippti í mig og sagði: „Þú átt að horfa á þetta hvíta” og benti á sýningartjaldið. Mér þótti nú fátt markvert vera gerast þar en fyrr en varði tóku ljósin að dofna. Ég óttaðist að nú væri Laxá enn að svíkja okkur um rafmagn. En þá gerðist undrið mikla. Lifandi myndir birtust á hvíta tjaldinu og Tarzan apabróðir sveif milli trjánna af slíkri fimi að ekkert slíkt hafði áður sést norðan heiða! Með honum var svo Jane, sem Höddi sagði að væri konan hans, en þau töluðu saman á útlensku svo ég var engu nær enda kom mér hjal þeirra ekkert við. Nóg var að fylgjast með afrekum hans og ævintýrum.

Svo kom hlé og allir fóru fram, sumir drukku Valash og Jollykóla og þeir stöndugustu splæstu á sig Lindu-buffi. Þá tók ég eftir því að næsta dag var mynd með kúrekanum Roy Rogers og uppáhaldshesti hans sem hét Trigger og kunnugir sögðu að væri mikill undra færleikur sem gat hlaupið og svifið með húsbónda sinn á bakinu í gegnum ótrúlegustu raunir.

Svo leið þessi fyrsta bíóferð í Nýja bíó eins og í draumi. Þegar heim kom varð ég óðamála við foreldra mína um þennan merkisviðburð í lífi mínu og hafði litla matarlyst um kvöldið af geðshræringu einni saman. Um nóttina dreymdi mig að við Tarzan apabróðir svifum saman milli trjánna í frumskógum Afríku og Jane hrópaði sífellt til okkar hvatningarorð í einlægri aðdáun.   

Ingólfur Sverrisson

 


Athugasemdir

Nýjast