Akureyri-höfuðborg skýrslugerða

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Um þessar mundir er töluvert fjallað um nauðsyn þess að Akureyri breytist úr bæ í borg enda fátt snautlegra en að vera bara bæjarbúi þegar færi gefst á að kenna sig við borg. Nú hefur ráðherra skipað starfshóp sem falið hefur verið að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar. Fulltrúi bæjarins í hópnum hefur upplýst að tækifærið verði nýtt til að koma að því nauðsynjamáli að Akureyri verði breytt í  borg - gott ef ekki stórborg! Þá muni margt breytast til batnaðar og gleði ríkja í bænum - afsakið: í borginni. Auðvitað þarf ekki að efast um að starfshópurinn komi fram með margar góðar ábendingar um verkefni sem nauðsynlegt er að vinna að til að ná því markmiði að treysta hlutverk Akureyrar sem höfustaðar Norðurlands. Þegar það liggur allt fyrir um mitt næsta ár sýnir reynslan að eitt er að gera fínar áætlanir en allt annar handleggur að koma þeim í framkvæmd. Skoðum nokkur dæmi um það hér á Akureyri.

Atvinnustefna 2000 - 2005  

Árið 1999 var birt vönduð skýrsla starfshóps þar sem leitað var leiða til að styrkja atvinnulífið á Akureyri næstu fimm árin. Þar var tilgreind framtíðarsýn í þessum málaflokki svo og verkefni sem unnið skyldi að á hverju sviði á tímabilinu; allt mjög vandað og vel upp sett. Ennfremur var áréttað að í upphafi hvers árs færi fram endurskoðun stefnumótunarinnar með tilliti til breytts umhverfis og þess árangurs sem náðst hefði árið áður. En svo gerðist ekki neitt. Ekki í eitt einasta skipti var skoðað hvernig verkinu miðaði enda sannleikurinn sá að sáralítið ef nokkuð var unnið í því sem gera átti. Margir kenndu því um að engum aðila í bæjarkerfinu hefði verið falið að sjá um framkvæmd einstakra liða áætlunarinnar. Þess vegna endaði þessi mikla vinna sem hillufóður, gleymd og grafin.

Atvinnustefna 2014 - 2021

Svo leið tíminn og árið 2013 var gerð önnur atlaga að mótun atvinnustefnu og nú fyrir árabilið 2014 til 21.  Fjölmargir úr atvinnulífi bæjarins komu að þeirri vinnu og sérfræðingar við hvert fótmál. Fólkið var reynslunni ríkara frá fyrra starfi og því var hverju verkefni, sem lagt var til að ráðist yrði í, tilnefndur ákveðinn umsjónaraðili sem átti að bera ábyrgð á því að unnið væri samkvæmt áætluninni. En þrátt fyrir það hafa flest ef ekki öll verkefnin gufað upp og aldrei orðið að veruleika.  Dæmi um það er að stofna átti Samráðsvettvang atvinnulífs og stjórnkerfis þar sem fram færi regluleg greining á stöðu og þróun einstakra atvinnugreina til að auka gegnsæi og stuðla að bættri ákvarðanatöku í stjórnkerfinu og/eða  hjá fyrirtækjunum. Hingað til hefur bæjarstjórnin ekki haft þrek til að skipa þennan vettvang sem svo mikil áhersla var lögð á að stofna.  Eins fór með skilgreindar hugmyndir um klasamyndanir einstakra atvinnugreina - ekkert aðhafst og málið koðnaði niður. Nú er eitt ár eftir af þeim tíma sem áætlunin góða tekur til og bendir allt til að hún hljóti sömu örlög og sú fyrri - að vera góð og vönduð skýrsla sem endar uppi í hillu enda alkunna að fjarska langt er á milli orða og athafna í þessari verðandi borg.

Miðbæjarskipulagið

Sjálfur hef ég oftar en talið verður vakið athygli á mikilli vinnu við skipulag miðbæjarins og gríðarlegum fjármunum sem í það ágæta verk var varið. Þar er nú allt sama markinu brennt; ekkert gerist nema þá helst að skipa fleiri nefndir og skrifa nýjar skýrslur um einstaka liði skipulagsins. Ein þeirra fjallaði um staðsetningu umferðarmiðstöðvar sem þó hafði verið fundinn góður staður í skipulaginu frá árinu 2014.  Eftir miklar yfirlegur og útgjöld komst virðuleg nefnd að því að upphaflega tillagan um staðsetningu fyrir norðan Ráðhúsið hafi bara verið aldeilis ágæt! Lauk þar með því merka nefndarstarfi en ekkert bólar á framkvæmdinni. Um þessar mundir er næsta nefnd og fjöldi sérfræðinga með tilheyrandi kostnaði að fjalla um hvort fara eigi eftir meginlínum nýja miðbæjarskipulagsins eða riðla því öllu án þess að hafa sett sér nokkurt markmið með því fikti. Sjálfur legg ég til að þriðja nefndin verði sett á stofn og henni falið að skilgreina hvernig eigi að koma sér að verki þegar búið er að ákveða hlutina! En að öllu gamni slepptu þá sýna þessi dæmi að ekki er nóg að vinna að góðum úttektum og stefnumótun ef kjarkinn skortir til að koma þeim í framkvæmd.  

Tyllivon

Síðasti þáttur þessa sjónarspils er tillögugerðin um hlutverk Akureyrar og uppsetning fallegrar skýrslu um það göfuga málefni. Hefur jafnvel gripið um sig barnslegur fögnuður yfir þessu verkefni og einlæg trú á að nú muni eitthvað stórbrotið gerast. Sem betur fer ríkir trúfrelsi hér á landi og því óviðeigandi að gera lítið úr þessum nýju trúarbrögðum. Samt sem áður sýnist mörgum í ljósi reynslunnar að hér sé enn ein tyllivonin að fæðast sem getur aðeins af sér enn eina skýrsluna. Eftir sem áður getum við Akureyringar haldið áfram þeirri göfugu iðju að týna fram ótal rök fyrir því að bærinn okkar sé borg ef einhverjum líður betur með það.

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast