Aðför að ferðaþjónustu

Á meðfylgjandi mynd siglir hvalaskoðunarskipið Opal úr höfn á Húsavík út á öflugasta hvalaskoðunarsvæði heims með stærstu lífverum sem lifað hafa á jörðinni,  Steypireyð og mestan fjölda hvalategunda.

Í forgrunni er toppur minnismerkis, jörð og tungl, fyrir framan Húsavík Cape Hotel um æfingar Apollo tunglfara sem æfðu á árunum 1965 og 1967 í Þingeyjarsýslu fyrir ferðir sínar til tunglsins og hafa margir þessara öldnu og reynslumiklu heiðursmanna ásamt eiginkonum sínum heimsótt okkur undanfarin ár, ferðast með okkur á æfingastaðinn í Öskju og gist á nefndu hóteli. Var minnismerkið að viðstöddum báðum sonum fyrsta tunglfarans, Neil Armstrong, afhjúpað af öllum barnabörnum hans.

Á Íslandi eru tveir heimsfrægir hringir; Gullni hringurinn og Demantshringurinn. Gullna hringinn prýða djásn og merkir staðir eins og Þingvellir, Geysir og Gullfoss ofl.

Demantshring okkar Norðlendinga prýða m.a. Goðafoss, Mývatn, Jökulsá á Fjöllum með fossaröð og Dettifoss aflmesta foss Evrópu , Jökulsárgljúfur, Ásbyrgi, Flateyjarskagi, Húsavík og Skjálfandaflói með öllum hvölunum.

Nú hefur verið gerð sú aðför að ferðaþjónustu á þessu einstaka svæði DEMANTSHRINGSINS að búið er að takmarka verulega umferð til Húsavíkur um neðstu brú Skjálfandafljóts og í raun þannig dæma þessa 88 ára gömlu einbreiðu brú ónýta og hefði mátt og átt að gera það fyrir langa löngu síðan og vera búið að byggja nýja öflugri tvíbreiða brú og stytta veg þarna um fjölda kílómetra.

Innviðaráðherra, Vegagerðin og Þingeyjarsveit verða tafarlaust að gera opinbera grein fyrir þessu sem er að valda stórtjóni á þessu landsvæði. Þetta er ekki eina klúður sem á okkur brennur því við höfum jafnframt mjög miklar áhyggjur af mikilvægum flugsamgöngum inn á stórt og eftirsóknarvert svæði hér um Aðaldalsflugvöll sem hefði átt og um var talað á sínum tíma að vera varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll því þar er víðátta meiri en í þröngum firði.

Ekkert er heldur gert í samgöngumálum til að bæta og stytta Norðurleið þjóðvegar 1 frá Reykjavík að Demantshringnum. Ég tók á sínum tíma upp á Alþingi slíkar vegstyttingar sem gætu með Sundabraut hæglega verið 50 kílómetrar og jafnvel meira að Demantshringnum.

Hefi ég aldrei skilið baráttuleysi Akureyringa og Eyfirðinga að berjast ekki í þessu máli vegstyttinga í stað þess að bulla um veglengingu með 22 kílómetra jarðgöngum undir Tröllaskaga sem Vegagerðin virðist gefa lítið fyrir og aldrei verða.

Eyfirðingar verða að tala af krafti fyrir vegstyttingum sem lang fjölmennasta svæði landsbyggðar á Íslandi og myndi þetta lækka flutningskostnað þar bæði til og frá um marga milljarða á hverju ári auk alls annars hagræðis og mikils tímasparnaðar og aukins öryggis í akstri.

Framanritað snýr að því sem má og á að bæta á Norðurlandi. Allt er hinsvegar eins og alltaf í góðu lagi á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu með Keflavíkurflugvöll og Hvassahraunsflugvöll fyrirhugaðan og 300 ára eldgosahrinu sem þar er byrjuð með þrem eldgosum á þrem árum og þá eru í alvöru talað miðað við það að 297 eldgos geta verið eftir þarna ef þetta er takturinn.

Landsbyggðarfólk á og verður að rísa upp af fullum krafti og verjast og berjast fyrir sín svæði og sína tilveru, koma svo, koma af krafti því nú er baráttan byrjuð og ekki verður aftur snúið.

Örlygur Hnefill Jónsson


Athugasemdir

Nýjast