11.desember - 18.desember - Tbl 50
Að kjósa taktískt
Komið er að lok kosningabaráttu sem hefur í senn verið áhugaverð og skemmtileg.
Til hennar var boðað með skömmum fyrirvara sem varð til þess að flestum flokkum gafst ekki tími til að efna til prófkjara. Niðurstaðan var því sú að stillt var upp á lista og verð ég að segja að mjög vel hafi tekist til víðast hvar.
Í sætum ofarlega á listum núna situr efnilegt og frambærilegt fólk sem líklega hefði ekki gefið kost á sér ef það hefði þurft að taka þátt í prófkjöri og sennilega margir líka sem ekki hefðu náð árangri með þeirri aðferð. Má þar minna á að núverandi starfandi forsætisráðherra kom einmitt inn á þing eftir uppstillingu. Í prófkjörum eru það oftast þeir sem starfað hafa lengst í viðkomandi flokki sem vegnar best það er ef viðkomandi sýnir áhuga á að gefa kost á sér áfram. Nánast óþekkt er að slíkir flokkshestar séu felldir í prófkjörum. Þá tel ég líklegt að einhverjir þeirra sem nú er líklegt að nái inn á þing hefðu aldrei náð því ef þeim hefði ekki verið stillt upp á lista.
Í kjölfar forsetakosninganna í vor var talað um að fólk hafi kostið taktískt. Menn töldu að koma ætti í veg fyrir kjör fyrrverandi forsætisráðherra með því að kjósa þann sem líklegastur væri að fella hana. Sjálf var ég mjög ánægð með niðurstöðu kosninganna og er þeirrar skoðunar að forsetinn okkar hefði náð kjöri á eigin verðleikum en það er annað mál.
Nú er aftur farið að tala um taktískar kosningar. Við sjáum í skoðanakönnunum að einhverjir flokkar eiga enga möguleika á að ná inn á þing. Þar falla dauð mörg atkvæði og eðlilegt að stuðningsmenn hafi af því áhyggjur. Þá hafa myndast tveir turnar flokka sem verið hafa í stjórnaraðstöðu. Og þar sem líklegt er að annar hvor þeirra verði skilgreindur sem sigurvegari kosninganna og fái þar með umboð til að mynda stjórn, skiptir máli hvor þeirra endar stærstur. Þar gæti skipt sköpum atkvæði þeirra sem velja að kjósa taktískt svo þeirra atkvæði nýtist.
Spennan er nánast að verða óbærileg ekki síst varðandi það hvort veðrið verði í aðalhlutverki á kjördag eða ekki. Hvernig sem fer, styttist í sögulegar kosningar að lokinni sérlega skemmtilegrar kosningabaráttu.
Höfundur er áhugamaður um almenna velferð.