Á að vernda gömul timburhús?

Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson.

Á undanförnum misserum höfum við misst allt of marga í brunum á gömlum timburhúsum á Íslandi. Á svæði Slökkviliðs Akureyrar hafa orðið fjórir slíkir brunar á rúmu ári og eitt andlát. Lukkan ein réði því að ekki varð enn frekari mannskaði. Þótt kviknað hafi í af misjöfnum ástæðum þá virðast þessi atvik eiga það sammerkt að eldurinn átti greiða leið á milli rýma húsanna. Einnig er í öllum tilfellum hægt að fullyrða að þróun brunans hafi verið óvenju hröð miðað við bruna í nýrri húsum og því hafi fólk haft of lítinn tíma til að bregðast við.

Eldvarnaeftirlit í íbúðarhúsum er eingöngu í formi öryggis- og lokaúttektar áður en húsnæðið er tekið í notkun. Síðan er það algerlega á ábyrgð eiganda og/eða forráðamanns að farið sé að reglum um eldvarnir, t.d. varðandi hólfun, flóttaleiðir, yfirferð raflagna, viðvörunarbúnað, val á byggingarefni og frágang á viðhaldi. Gömul hús sem hafa ekki verið gerð algjörlega upp sl. áratugi hafa því e.t.v. aldrei verið skoðuð eða tekin út af eldvarnaeftirliti. Þessi hús eru í sumum tilvikum ódýrari en gengur og gerist og er alls ekki öruggt að eigendur hafi fjárhagslegt bolmagn til að fara í dýrar endurbætur, sérstaklega ef húsið er orðið 100 ára eða eldra og komið á friðunarlista. Þá er heldur ekki sama hvernig endurnýjun er háttað og miklar kröfur frá Minjastofnun um að vernda hverja spýtu og nagla í upprunalegri mynd.

En hvað skal til bragðs taka? Ekki er til einfalt svar við því, en ég tel þó lífsnauðsynlegt að huga að þessum málum hið fyrsta og áður en við missum fleira fólk í slíkum eldsvoðum. Hugsanlega ætti ríkið að koma að því að endurbyggja hús sem krafa er að vernda vegna aldurs, en að mínu mati er oft og tíðum ekki tilefni til þess þar sem um er að ræða lélega kofa sem voru e.t.v. byggðir af litlum efnum í upphafi. Stundum snýst þetta um útlit og götumynd en þar langar mig að benda á að hægt er að rífa lélegt hús og byggja nýtt eftir nútímakröfum en halda í sama stíl og útlit. Einnig mætti huga að svipuðu kerfi og í Danmörku þar sem hús og íbúðir fá einkunn sem gefur til kynna einangrun hússins, ástand lagna, þaks og fleira. Verð eigna er síðan í samhengi við þessa einkunn. Þannig er kominn hvati fyrir eigandann að lagfæra húsnæðið þar sem hann gæti fengið kostnaðinn til baka þegar hann selur.  

Einhver gæti spurt sig, hvað kemur það eldvörnum við þótt glerið sé orðið tvöfalt og komin steinull í veggi og loft? Jú það hefur nefnilega bein áhrif. Við endurnýjun á gluggum er oftast sett björgunarop í leiðinni. Steinull og nútíma byggingarefni auka eldvarnir og gefa íbúunum þann tíma sem þarf til að bjarga sér út og slökkviliðunum tíma til að bregðast við ef svo illa fer að eldur komi upp.

Ég skora á stjórnvöld að skoða þessi mál sem fyrst þannig að ekki þurfi að koma til fleiri slysa af þessum völdum.

-Ólafur Stefánsson,  slökkviliðsstjóri á Akureyri


Athugasemdir

Nýjast