Þegar Héðinn Mara hafnaði fálkaorðunni

Héðinn Mara og Helga kona hans.
Héðinn Mara og Helga kona hans.

Héðinn Maríusson var af þeirri kynslóð trillukarla á Húsavík sem   tóku því sem lífið rak á þeirrar fjörur af æðruleysi og jafnaðargeði og litu aldrei á sig sem „hetjur hafsins“ eins og síðar var haft á orði um hans líka.

Þegar Héðinn var í kringum sjötugsaldurinn, en hann var fæddur 1899, var haft samband við elstu dóttur hans frá skrifstofu forseta Íslands, sem þá var Kristján Eldjárn, og henni tilkynnt að ákveðið hefði verið að sæma föður hennar álkaorðunni. Ekki var hægt að ná í Héðinn sjálfan í síma, hann átti aldrei svoleiðis tól og taldi slíkt algjöran óþarfa. Og þó börnin væru löngum að suða í honum að fá sér síma, þá sat sá gamli við sinn keip, varð ekki haggað og fór símalaus í gegnum lífið.

Hvað fálkaorðuna varðaði þá hélt Héðinn að hann færi sko ekki að taka við svoleiðis glingri! Þetta væri  rétt líkt þeim þarna fyrir sunnan, að ætla að fara að verðlauna mann fyrir að hafa aldrei gert annað en það sem hann hafði gaman að.

Og Sjómaðurinn með stórum staf, Héðinn Maríusson, þverneitaði því að taka við orðunni og var síðan að sjálfsögðu ekkert að halda því á lofti að hann hefði orðið þeirrar upphefðar aðnjótandi að verða tilnefndur sem fálkaorðuþegi. JS

(Byggt á frásögn Helgu Nínu, dótturdóttur Héðins).


Athugasemdir

Nýjast