„Sjónvarpið er meiri hjónadjöfull en brennivínið!“

Starri í Garði var engum líkur. Mynd: JS
Starri í Garði var engum líkur. Mynd: JS

Starri í Garði var í viðtali í Víkurblaðinu á Húsavík og talaði að venju enga tæpitungu. Umræðan  barst að sjónvarpinu og  á því Satans fjölmúlavíli hafði Starri fastmótaðar skoðanir:

„Ég held því fram að sjónvarpið sé hjónadjöfull sem víða er búið  að leggja eðlilegt heimilislíf í rúst. Það  er svo lúmskt og t.d. miklu verra en brennivínið, því menn taka ekki eftir upplausn fjölskyldunnar af völdum sjónvarpsins, en hinsvegar er auðsætt hvernig áfengisbölið brýtur fjölskylduna niður.

Ég man vel eftir því þegar sjónvarpið kom í Mývatnssveit. Þá voru skilyrðin þannig að hvorki var mönnum né Mývetningum bjóðandi, hríðarkóf og eilífar truflanir á skjánum. Ég heimsótti kunningjafólk mitt að kvöldlagi, svona rétt til að kjafta um daginn og veginn og jafnvel pólitík, eins og ég hafði gert um árabil. En þegar ég kom inn í stofuna á bænum, þá sat öll fjölskyldan og glápti opinmynnt á hríðina á skjánum. Menn máttu varla vera að því að kasta á mig kveðju, en einhver fleygði í mig stólgarmi og mér var greinilega ætlað að horfa á skjáhríðina með fólkinu. Og, það sem verra var, steinhalda kjafti á meðan!

Ég fann strax að ég var þarna að trufla helgistund, þannig að ég stóð á fætur eftir nokkra stund og laumaðist út. Og ég held að enginn hafði tekið eftir því þegar ég fór.“

Sagði Starri, sjálfum sér líkur. JS


Nýjast