Lítt notaður Liverpool fáni á Mararbrautinni

Það tíðkast á Íslandi að aðdáendur erlendra, einkum enskra knattspyrnuliða, flaggi félagsfánum þegar þeirra lið eru að gera það gott.

Þetta er ekki öllum kunnugt og því vakti það eitt sinn athygli ökumanna um Mararbrautina á Húsavík, að þar blakti rauður fáni við hún fyrir utan húsið að  Mararbraut 9.  “Ætli horngrýtis kommadindlarnir séu nú að flagga fyrir afmæli Stalíns eða jafnvel Helga heitins hvíta?” Varð einum vegfarenda að orði.

En svo var ekki. Þetta reyndist vera félagsfáni fótboltaliðsins Liverpool sem Jónas nokkur Aðalsteinsson hafði dregið að húni eftir óvæntan sigur Liverpoolliðsins síns.  Jónas ku flagga ævinlega og eingöngu þegar Púllarar vinna og hefur gert árum saman. Gárungar segja hinsvegar að  fáninn sé alltaf eins og nýr og nánast ónotaður. Enda náttúrlega afar sjaldgæft að Jónas fái tækifæri  til flöggunar. JS


Athugasemdir

Nýjast