Fyrirhuguð morð á bæjarstjóra og barnaskólastjóra á Húsavík!

Daníel Ágúst Daníelsson – mörgum árum síðar!
Daníel Ágúst Daníelsson – mörgum árum síðar!

Þegar við Daníel Ágúst Daníelsson, Daníelssonar læknis á Húsavík og ég undirritaður, gagnfræðaskólastjórasonur í sama bæ, vorum 10 ára gamlir um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, höfðum við uppi áform um að drepa bæði bæjarstjórann og barnaskólastjórann á Húsavík, fyrir reyndar ekki verulegar sakir. En báðir höfðum við þá lesið Íslendingasögur og bækurnar um Prins Valiant og líkast til þaðan komu hugmyndir okkar um heiður og réttlæti og afleiðingar þess ef heiðri manna eða réttlætiskennd væri misboðið.

Á þessum árum bar ég út Alþýðublaðið í bænum (19 áskrifendur, þar af 5 með fría áskrift eftirlaunakrata) og rukkaði að sjálfsögðu einnig. Bæjarstjórinn, Áskell Einarsson, annálaður framsóknarmaður, var af einhverjum ástæðum áskrifandi að málgagni Alþýðuflokksins og jafnframt einhver sá skuldseigasti  í bænum. Ég var nýkominn úr þriðju árangurslausu innheimtuherferðinni til Áskels og kvartaði yfir þessu við Daníel vin minn. Sem var ekkert að flækja hlutina og sagði: „Við drepum bara bæjarstjórann. Þá borga allir hinir sem skulda Alþýðublaðið strax!“

Á þessum árum vissum við ekkert um Mafíuna, þannig að þessi ályktun hins 10 ára gamla læknissonar var bísna frumleg, sem sé að skapa fyrirbyggjandi fordæmi sem aðrir skuldunautar létu sér að kenningu verða.

En ástæða þess að við félagar vildum einnig myrða barnaskólastjórann Kára Arnórsson, var önnur. Skólinn stóð fyrir hlutaveltu sem heitir tombóla í dag og við Daníel keyptum 5 miða hvor og biðum spenntir eftir vinningum. En þá kom síðbúin tilkynning frá skólastjóra um að þetta væri svokölluð „núllmiðahlutavelta“ og þeir sem höfðu keypt miða með núlli fengju engan vinning. Og svo vildi til að miðarnir okkar Daníels, 10 talsins, voru allir með núlli.

Og niðurstaðan? „Við drepum Kára!“ Sagði Daníel.

Nú hálfri öld síðar er Kári enn á lífi og hinn hressasti en heiðursmaðurinn Áskell er látinn - án þess þó að við Daníel höfum átt þar nokkurn hlut að máli. JS


Athugasemdir

Nýjast